Úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 13:46:59 (4529)

2004-02-24 13:46:59# 130. lþ. 70.94 fundur 353#B úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hreyfa við þessu máli. Ég held að það sé full ástæða til þess að ræða stöðu hafrannsókna og það hvernig við nýtum skip og tæki og mannafla sem þó er til staðar í því skyni. Það var auðvitað mikið framfaraskref þegar hinn nýi Árni Friðriksson kom og gerði það kleift að sinna rannsóknum sem áður höfðu ekki verið á færi íslensku skipanna, svo sem eins og á djúpmiðum á Reykjaneshrygg og víðar, að því viðbættu auðvitað að öll aðstaða starfsmanna stórbatnaði þar með og einnig auðvitað með endurbyggingu Bjarna.

En það er til lítils eða kemur ekki að fullum notum að hafa góð tæki, skip og búnað ef ekki eru til fjármunir til að tryggja fullt úthald og fulla nýtingu á hinum sömu skipum og tækjum. Miðað við þann fjölda úthaldsdaga sem hv. málshefjandi nefndi yrði nýtingin á Árna Friðrikssyni ekki mikil til hafrannsókna ef ekki kæmu til rannsóknir sem tengjast fyrst og fremst kröfugerð okkar eða undirbúningi á kröfulýsingu okkar vegna Hatton-Rockall svæðisins þannig að þar mætti ábyggilega betur gera og ekki skortir verkefnin.

Ég held að það sé einnig rétt að minna á þörfina fyrir rannsóknir á grunnmiðunum og á hafsbotninum og alveg eins inni á flóum og fjörðum eins og úti á djúpmiðum, rannsóknir á eða með bátaflotanum við sérveiðar o.s.frv. Tölur um úthaldsdaga minnsta skipsins, Drafnarinnar, benda ekki til þess að það sé úr miklu að moða þar ef skipið er nýtt í rúmlega tvo mánuði á ári í heild og þar af eitthvað í tengslum við skóla.

Ég held því að það sé ákaflega mikilvægt að við förum yfir þessi mál og einnig vegna þess sem málshefjandi nefndi að aðstæður eru að breytast, við erum að upplifa miklar breytingar í umhverfinu, breytt nýting á stofnum hefur auðvitað sín áhrif á samspilið o.s.frv. Það er því full ástæða til þess að hyggja vel að þessum málum.