Úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 13:57:55 (4534)

2004-02-24 13:57:55# 130. lþ. 70.94 fundur 353#B úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir# (umræður utan dagskrár), GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[13:57]

Guðlaugur Þór Þórðarson:

Virðulegi forseti. Það þarf ekkert að ítreka hér hversu mikilvægar hafrannsóknir eru almennt og þó sérstaklega fyrir okkar þjóð sem byggir jafnmikið og raun ber vitni á fiskveiðum og því tengdu. Ég held að ef við lítum á fjárhagslega hlið málsins, eins og ráðherra fór hér yfir, þá sjáum við að aukningin hefur verið frá 16,5% til 23% á undanförnum missirum. Ef við setjum einhverja mælistiku, sem er þá aukning í veiðum á okkar helstu nytjastofnum, þá horfum við fram á mikla aukningu í ýsu og sömuleiðis er ekki hægt að halda öðru fram en að við höfum náð árangri í uppsjávarfiski, ef svo má að orði komast.

Vissulega vildu menn sjá meiri aukningu á þorskveiðum en ég held þó að við getum sagt að þorskstofninn, eða við skulum vona það, sé á réttri leið. Ég veit þó ekki hvort mælistika sem þessi sé að fullu leyti sanngjörn og ég held að rétt sé að við lítum á önnur lönd til þess að bera okkur saman við. Ef við skoðum t.d. þorskveiðistofninn í Kanada sem hrundi á skömmum tíma og ástandið í Norðursjó þá held ég að niðurstaða okkar hljóti að vera sú að beita varúðarreglunni í þessu sambandi.

Hins vegar eru hafrannsóknir ekki frekar en önnur vísindi fullkomin og þrátt fyrir það að ég hafi mikla trú á Hafrannsóknastofnun og telji að við eigum hina færustu vísindamenn á þessu sviði þar starfandi og ég held að við getum verið stolt af þeirri stofnun, þá tel ég vera sjálfsagt að við leitum leiða til þess að víkka þekkingargrundvöllinn og fá fleiri til þess að koma að þessum rannsóknum. Ég er afskaplega ánægður með að sjá það að hæstv. sjútvrh. hefur stigið fyrstu skrefin hvað það varðar og við sjáum það í lögum um ólögmætan sjávarafla að þar er til staðar verkefnasjóður sjávarútvegsins eins og þingheimur þekkir, þar sem opnað er fyrir það að fleiri komi að þessum málum og ég tel það vera þróun í rétta átt.