Úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 14:00:11 (4535)

2004-02-24 14:00:11# 130. lþ. 70.94 fundur 353#B úthald hafrannsóknarskipa og hafrannsóknir# (umræður utan dagskrár), Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin og þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Það er ekki þar með sagt að ég sé algjörlega sammála öllu því sem ráðherrann sagði.

Mér er t.d. spurn þegar því er haldið fram að Hafrannsóknastofnun sjái eingöngu um forgangsröðun verkefna. Ég hefði talið að hæstv. ráðherra ætti að hafa á því skoðun hvernig þeim verkefnum er forgangsraðað og hvaða áherslur hann heyrir sem stjórnmálamaður að menn vilji leggja áherslu á í þjóðfélaginu við hafrannsóknir.

Þær áherslur sem skipstjórnarmenn og fiskimenn hafa verið að benda á eru ekki alltaf í forgangsröðun hjá Hafrannsóknastofnun. Ég held að við ættum að hafa það hugfast og nægir í því sambandi að nefna bara eitt dæmi um ufsann, þegar fiskimenn við landið fóru að benda á það fyrir nokkrum árum að hér væri mikil ufsagengd og miklu meiri en Hafrannsóknastofnun virtist viðurkenna í sínum skýrslum. Það birtist loksins í skýrslunni sem við erum með núna undir höndum, sem kom út sl. vor, að Hafrannsóknastofnun viðurkennir að ufsagengdin hafi aukist hér við land án þess að á því séu neinar sérstakar skýringar, en í nokkurn tíma þar á undan var ekki tekið mark á þeim vísbendingum sem fiskimenn gáfu.

Það er fjöldamargt sem þarf að takast á við, nú um stundir er mjög breytilegt lífríki hér við land, miklar breytingar á hitafari og afar nauðsynlegt að við veltum því fyrir okkur hvernig við ætlum að bregðast við ef sjór hlýnar svo í Grænlandssundi að þorskurinn fari að fara yfir til Austur-Grænlands. Hvað ætlum við að gera þá, hvaða skoðun ætlum við að hafa?