2004-02-24 14:10:33# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[14:10]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Það er rétt að taka það fram í upphafi máls míns að almennt er ég sammála því að ná samningum við önnur ríki um veiðar á sameiginlegum fiskstofnum og tel að það eigi að vera okkur ævinlega til hagsbóta að hafa samning um nýtingu veiðistofna.

Nú hagar svo til, virðulegi forseti, að samningurinn um norsk-íslensku síldina er í uppnámi og hefur ekki komist á og miðað við upplýsingar hæstv. utanrrh. sem hann gaf m.a. á Alþingi horfir illa um þá samningsgerð. Það er kannski í ljósi þess sem við ræðum samninginn um loðnuveiðar og þann samning sem snýr að Norðmönnum. Þær spurningar sem ég vil koma með í umræðuna eru: Hvað hyggst utanrrh. gera og íslensk stjórnvöld varðandi loðnusamninginn? Hyggjast menn segja honum upp með þeim fyrirvara sem þar er kveðið á um? Þannig viðbrögð fengum við þegar illa gekk að semja um síldina og snerum þá okkar málflutningi í þá veru að það væri ekki ástæða til að hafa samning um loðnuveiðarnar í gildi milli þjóðanna ef ekki næðist samkomulag um norsk-íslensku síldina.

Nú snýr málið þannig á nýjan leik að ekki lítur út fyrir að náist samningur um norsk-íslensku síldina og kannski hafa þær fréttir sem m.a. bárust af brottkasti á íslensku skipi við síldveiðar orðið til að setja enn frekari hnút í þær viðræður, ég skal ekki leggja mat á það en það er alla vega ekki til hagsbóta fyrir okkur.

Þá má líka spyrja í því sambandi um loðnuveiðar norskra skipa í íslenskri lögsögu, hversu vel við höfum staðið að eftirliti með þeim og hversu vel stöndum við að eftirliti með veiðum úr uppsjávarfiskum yfirleitt þegar kemur að nýtingu skipa sem eru að vinna aflann um borð og hvernig hefur okkur tekist að framkvæma það eftirlit.

Þessar spurningar hljóta að vakna þegar við erum að ræða málið en hins vegar er alveg sérstaklega áhugavert að fá svör um það eða álit hæstv. utanrrh.: Hvernig munum við bregðast við varðandi loðnusamningana með tilliti til þess sem við stöndum frammi fyrir í norsk-íslenskri síld og samningaleysi þar? Munum við taka svipaða afstöðu og við tókum áður, að ekki sé ástæða til að hafa samning um loðnuveiðar ef við náum ekki samningum við Norðmenn um síldveiðar? Hver munu viðbrögðin verða?