2004-02-24 14:52:46# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans við þeim spurningum sem hann fékk og þær upplýsingar sem hann gaf í umræðunni um stöðu mála.

Út af fyrir sig get ég verið sammála hæstv. ráðherra um að æskilegt sé, og talsvert á sig leggjandi til þess, að í gildi séu samningar um þessi mál og almennt sé unnið í góðu samstarfi þeirra þjóða sem í hlut eiga þegar við erum að ræða um sameiginlega fiskstofna eða deilistofna sem ganga inn og út úr lögsögu ríkja og eru jafnvel á tíðum veiðanlegar í úthafinu sjálfu, eins og í síldarsmugunni.

En ég tek einnig undir með þeim þingmönnum sem hér töluðu, m.a. hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í andsvari og hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Við verðum að standa á okkar rétti engu að síður. Það er ákaflega mikilvægt að við náum að tryggja okkur sanngjarna, eðlilega og réttláta hlutdeild í stofnum sem við höfum tilkall til, bæði af líffræðilegum ástæðum, vegna þess að viðkomandi stofn vex upp eða dvelur að einhverju leyti innan íslensku sérefnahagslögsögunnar og/eða, sem yfirleitt er, að við eigum sögulega hlutdeild í nýtingu viðkomandi stofns eins og í tilviki norsk-íslensku síldarinnar, þar sem hlutur Íslands var á köflum býsna mikill áratugina um miðbik síðustu aldar.

Óneitanlega er umhugsunarefni hversu háar kröfur Norðmenn setja fram um hlut í norsk-íslenska síldarstofninum. Ég held að því verði a.m.k. tæplega á móti mælt að að væri ákaflega ósanngjarnt ef Ísland þyrfti að minnka hlutdeild sína umtalsvert til að mæta einhliða kröfum frá Norðmönnum um að auka sinn hlut. Ef eitthvað er finnst manni meira álitamál hversu sterka stöðu Rússar, þá kannski sérstaklega Evrópusambandið, hafa til að gera kröfur um nýtingu þessa stofns. Stofninn er fyrst og fremst að uppistöðu til íslensk-norskur í líffræðilegu og sögulegu tilliti.

Hæstv. ráðherra upplýsir, sem ég þóttist vita, að í raun sé kominn á samningur fyrir loðnuvertíðina 2004--2005, með því að hann hefur framlengst þar sem ekki var tilkynnt með sex mánaða fyrirvara, fyrir 1. maí næstkomandi, að samningnum yrði sagt upp. Í öllu falli er ekki um það að ræða á þeirri vertíð sem í hönd fer og hefst næsta sumar eða næsta vor. Verði hins vegar allt í uppnámi með norsk-íslensku síldina er að sjálfsögðu ekki hægt að útiloka að gripið verði til þess ráðs á nýjan leik að segja samningnum upp.

Mér finnst að mörgu leyti ekkert óeðlilegt að þessir tveir samningar séu bornir svolítið saman því að þeir eru um margt býsna hliðstæðir og nánast eins og spegilmynd hvor af öðrum. Í öðru tilvikinu eru Norðmenn með langstærstu hlutdeildina í norsk-íslensku síldinni á móti Íslendingum og reyndar fleiri aðilum en í hinu tilvikinu eru Íslendingar með langstærstu hlutdeildina í loðnustofninum á móti Norðmönnum og Grænlendingum. Það þýðir ekki að efnislega sé hægt að bera ýmsa aðra samninga saman eins og þeir séu hliðstæðir. Mér finnst alveg fráleitt að nefna í því samhengi samninginn um veiðar í Barentshafi. Hann er af allt öðrum toga. Þar stofnaðist fyrst og fremst réttur til handa Íslendingum til veiða af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna sögulegra veiða Íslands uppi í Barentshafi, eða Hvítahafi eins og áður var talað um, og hins vegar að við sýndum fram á að við hefðum möguleika og getu til að stunda veiðar á alþjóðlegu hafsvæði í svonefndri Smugu. Það var veruleiki sem nágrannaþjóðirnar urðu að horfast í augu við, að við sem fiskveiðiþjóð við norðanvert Atlantshaf áttum að sjálfsögðu fullan rétt á að nýta veiðimöguleika okkar á þessu alþjóðlega hafsvæði innan skynsamlegra marka. Til þess varð að taka sanngjarnt tillit á fiskveiðistjórnarsvæðinu. Það hefur verið gert með samningum um okkar hlutdeild í veiðum í Barentshafi. Þó að þar sé að vísu ekki um mikið magn að ræða verður að taka tillit til þess. En það byggir á allt öðrum grunni en þessi tvíhliða eða þríhliða samskipti Íslands og Noregs og fleiri ríkja í sambandi við síld og loðnu.

Í þessu sambandi er vert að minnast kolmunnans, þess stóra hagsmunamáls sem þar er á ferðinni sem enn er ósamið um. Aftur eru þar Ísland og Noregur sem eiga hvað mestra hagsmuna að gæta í því sambandi.

Það er fagnaðarefni að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, vilji vera harður í horn að taka í sambandi við samningaviðræður við Norðmenn. Hann brýndi hæstv. utanrrh. til þess. Þá vil ég vekja athygli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar á því að því aðeins getur hann talað með þeim hætti sem hann gerir, um mikilvægi þess að við stöndum fast á samningsrétti okkar, að við höfum samningsrétt. Það er hollt að minnast þeim sem gjarnan tala um hversu fýsilegt það gæti verið fyrir okkur að ganga í Evrópusambandið. Þá geta menn kvatt í eitt skipti fyrir öll allt sem heitir sjálfstæður samningsréttur Íslendinga í milliríkjasamningum um fiskveiðistjórn. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þá færist samningsrétturinn til Brussel, til Evrópusambandsins. Okkar hlutskipti yrði að bítast innbyrðis á bak við tjöldin um það sem Evrópusambandinu semdist um og fljúgast á við Portúgali, Spánverja, Íra, Hollendinga, Þjóðverja, Dani og aðra þar sem hafa uppsjávarveiðiflota, t.d. í þessu tilviki.

Ég fagnaði mjög að heyra hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formann Samf., tala með þessum hætti um mikilvægi þess að nýta samningsréttinn og standa fast á kröfum Íslands. Það hlýtur að mega skilja sem svo að hv. þm. geri sér ljósa grein fyrir því hversu mikilvægur þessi sjálfstæði samningsréttur er sem því aðeins verður í höndum okkar að við afsölum honum ekki til Brussel.

Um Grænlandssamskiptin vil ég segja að ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að lögð verði í það mikil vinna og alúð á næstu missirum af Íslands hálfu að reyna að útkljá þau mál. Ég skora á hæstv. ráðherra að setja í það meiri kraft og auka samskiptin við Grænlendinga, sem ég veit að sönnu að eru að langmestu leyti ágæt og þar hefur ýmislegt ágætt gerst. Samningar um bæði loðnu og úthafskarfa eru mikilvægir. Eins var mikilvægt að útkljá miðlínudeiluna vegna Kolbeinseyjar sem hverfur nú senn af yfirborði jarðar, a.m.k. niður fyrir sjávarmál ef fram heldur sem horfir.

En það eru önnur gríðarlega mikil hagsmunamál í samskiptunum við Grænlendinga sem þarf að takast á við. Það væri framfaraspor ef tækist að koma út úr heiminum kvótasamningum Grænlendinga við Evrópusambandið. Þar er að vísu að hluta til verið að selja pappírsfisk. Síðan eru í farvatninu, mjög líklega, mikilvæg samstarfssvið, t.d. á sviði hafrannsókna og bolfiskveiða, ef svo heldur sem horfir við Grænland. Þar hljótum við Íslendingar auðvitað að ætla okkur þátt.