2004-02-24 15:01:06# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Össur Skarphéðinsson:

Hæstv. forseti. Ég kom í andsvar áðan við hæstv. utanrrh. Ég hefði nú a.m.k. vonast til þess að hann sýndi norsk-íslenska síldarstofninum þann sóma, þó ekki væri formanni Samfylkingarinnar, að svara þeim spurningum sem ég varpaði til hans. (Gripið fram í.)

Hæstv. utanrrh. orðaði það svo að hann teldi að skipting norsk-íslenska síldarstofnsins og sá hlutur sem kemur til okkar Íslendinga, væri bærilega þokkalegur. Ég get ekki annað en verið mjög ósammála þessari ályktun og niðurstöðu hæstv. utanrrh. Ég geri mér grein fyrir því að það var hann sem samdi á sínum tíma, einhvern tímann á síðasta áratug, um þessa skiptingu. En það þýðir ekki að hæstv. utanrrh. geti komið hingað og verið bærilega þokkalegur með þá niðurstöðu. Við munum vel að þeir samningar voru gerðir eftir harkalegt þóf ákaflega lengi. Það var niðurstaða sem hæstv. ráðherra kom með hingað. En ég man nú ekki betur en að þá, þegar hann var töluvert yngri --- ég er ekki að segja að hafi verið sprækari, en yngri var hann --- hafi hann verið hundóánægður með þá niðurstöðu og hann hafði engar vomur og vöflur á því að segja það í þessum sal. En hann vildi lenda samningunum. Mig minnir að við höfum einhver verið því andstæð og hugsanlega höfum við setið hjá í atkvæðagreiðslu. Ég man eftir því að þáverandi þingmaður, Jón Baldvin Hannibalsson, sem a.m.k. sat hér enn þá í aðdraganda þeirra samninga, hafði aðrar skoðanir á því en til að mynda ég. Ég lagði mig töluvert fram um það, hæstv. forseti, að skoða þetta mál. Ég er áhugamaður um þennan stofn og reyndar ýmsa miklu smærri og skrýtnari heldur en norsk-íslenska síldarstofninn og ég er þeirrar skoðunar að þeir samningar hafi verið gerðir í allt of ríkum mæli á röksemdum Norðmanna. Norðmenn gengu mjög harkalega fram gagnvart okkur og beittu þeirri röksemd að Íslendingar hefðu gerst sekir í reynd um ofveiði á fullorðna hrygningarstofninum sem gekk hingað út af Austfjörðum á sínum tíma.

Ég var því allsendis ósammála. Ég get vísað í vísindagreinar eftir fremstu fræðimenn Norðmanna á þessu sviði --- þá er ég að tala um á sviði síldarinnar --- sem eru miklu nær þeim rökum sem margir Íslendingar hafa teflt fram en þeim rökum sem norsk stjórnvöld hafa teflt fram.

Ég get ekki annað en rifjað það upp, eins og ég gerði í stuttu andsvari áðan, að þrír norskir vísindamenn --- það rifjast upp fyrir mér að það voru þeir Johannes Hamre sem ég held nú að stjórnvöld hafi margoft vísað til fyrr á árum og Öyvind Ulltang. Ég man ekki hver sá þriðji var. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að það hefðu verið gegndarlausar veiðar og mikil rányrkja Norðmanna á mjög ungri síld á innfjörðum í Noregi og innan norsku landhelginnar sem fyrst og fremst voru orsök fyrir hruni stofnsins. Það voru ekki veiðar okkar Íslendingar hérna út af Austfjörðum.

Ástæðan fyrir því að þessi stofn gengur eða gekk eftir sínu forna munstri á þær slóðir var einfaldlega sú að stofninn var orðinn svo stór að hann var að leita sér að nýju hafrými og nýjum skilyrðum til þess að geta vaxið á og snúið síðan aftur til hrygningar í norskri landhelgi. Hann kom hingað og forsendan fyrir því að hann náði þessari miklu stærð og varð að fullþroska hrygningarsíld var auðvitað þau skilyrði sem honum voru búin í hafinu út af Íslandi. Það voru ekki veiðarnar á hrygningarstofninum heldur rányrkja á íslenskri ungsíld. Það er þess vegna sem siðferðilega er mjög erfitt að fallast á það að Norðmenn fái þessa miklu hlutdeild úr síldarstofninum sem þeir hafa fengið.

Ég færði rök fyrir því á sínum tíma, hæstv. forseti, og margir fleiri að miðað við það hvernig nýting stofnsins hefði verið hér á árum fyrri milli okkar og Norðmanna þá ættu Íslendingar heimtingu á a.m.k. þriðjungi úr stofninum. Í dag er það þannig að við höfum verið að veiða 15--18%, fengið það í okkar hlut á síðustu átta, níu árum. Það er óásættanlegt. Það er ekki hægt að koma hingað og vera þokkalega ánægður með það.

Það er heldur ekki hægt finnst mér af hæstv. utanrrh. að koma og gefa í skyn að --- ég tók orð hæstv. ráðherra þannig að hann ætlaði sér hugsanlega að slaka enn frekar á gagnvart Norðmönnum. Eða hvað á hæstv. ráðherra við þegar hann talar um að nokkur þúsund tonn af síld megi ekki verða til þess að setja vináttu og samstarf þessara þjóða í uppnám? Við vitum að Norðmenn hafa alltaf verið ákaflega harðdrægir í samningum við okkur. Við fundum það í þessum síldarsamningum sem menn gerðu á síðasta áratug og mér finnst ekki hægt að gefa frekar eftir í þeim efnum. Það er alveg ljóst að Norðmenn hafa verið að búa sig undir þetta í nokkurn tíma. Ég segi það alveg hreinskilnislega að ég mun ekki taka þátt í að styðja það. Mér finnst að það sé ekki gott hjá hæstv. utanrrh. að tala með þessum hætti og ég held að sé ekki gott innlegg í þær viðræður sem hljóta að vera í gangi og hafa ekki borið árangur til þessa.

Við Íslendingar höfum vænst þess að þessi stofn nái að vaxa og stækka og nái að taka aftur upp sitt forna göngumunstur. Ástæðan fyrir því að það hefur ekki gerst er að öllum líkindum sú að stofninn hefur ekki náð þeirri stærð sem kallar á að hann leiti á aðrar slóðir til þess að síldin nái að vaxa og dafna. Hugsanlega eru það líka einhver breytt skilyrði í hafinu. Hér var um nokkurra ára skeið köld tunga niður með Austfjörðum sem gerði það að verkum að talið var, að bestu manna yfirsýn, að síldin færi ekki gegnum hana og gengi á sínar fornu slóðir út af Austfjörðum. Ég skal ekkert um það segja. Hitt veit ég að í hafinu eru aftur að verða breytingar sem eru slíkar að það er hugsanlegt að skilyrðin líkist fremur því sem var hér á árum fyrri. Ég hef ekki nægilega þekkingu og hef ekki lagt mig eftir því upp á síðkastið að fylgjast með því.

En hitt veit ég, hæstv. forseti, að engin rök eru fyrir því, engin fiskifræðileg og engin söguleg rök fyrir því að Norðmenn fái meira af þessum stofni í sinn hlut en þeir hafa nú þegar. Þeir hafa allt of mikið og Íslendingar hafa allt of lítið af þessum stofni. Nú eru að opnast markaðir eða við vonum að það séu að opnast markaðir fyrir unna síld úti í Evrópu, þ.e. í löndum sem samkvæmt hefð hafa neytt töluvert af síld, unninni síld, og eru að ganga í Evrópusambandið. Allar spár hníga að því að hagsæld muni þar vaxa og kaupmáttur fólks aukast og þar af leiðandi eru líkur á því að við getum selt okkar afurðir. Við þurfum á því fyrir Austfirði að halda m.a. og Ísland allt að veiða meira úr þessum stofni. Þess vegna segi ég að ég er ósáttur við þessi ummæli og ég er ósáttur við það að Íslendingar ætli að gefa eftir í þessum efnum.