2004-02-24 15:09:19# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að sjálfsögðu samninginn sem gerður var á sínum tíma ásættanlegan. Ég skrifaði undir þann samning fyrir hönd íslenska ríkisins. (ÖS: Menn hafa stundum skrifað grátandi.) Já, en ég hef nú ekki gert það. Það hlýtur að teljast eðlilegt að ég telji hann ásættanlegan vegna þess að ég hefði annars ekki skrifað undir hann.

Hitt er svo annað mál að ég hef alltaf talið það mikilvægast að líta til framtíðar í þessum efnum, líta til þess að byggja upp stofninn og líta til þess að síldin taki upp nýtt munstur. Það er ákvæði í samningnum sem gerir ráð fyrir endurskoðun ef verulegar breytingar verða á því munstri. Ég tel að ekkert slíkt hafi gerst sem kallar á endurskoðun, hvorki af okkar hálfu né af hálfu Norðmanna. Þess vegna tel ég eðlilegast að menn standi við þann samning sem gerður var hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Ég hef þess vegna talið að við ættum fyrst og fremst að líta til framtíðar í þessu efni. Það má hafa ýmsar skoðanir á því hvað gerðist í fortíðinni. Ég er einn þeirra sem tóku þátt í síldveiðunum á síðustu árum síldveiðanna hér við land úr norsk-íslenska síldarstofninum og hef ýmsar skoðanir á því hvað gerðist. Ég er sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ofveiði og rányrkja á smásíld á stóran þátt í því hvernig fór. En önnur atriði skipta áreiðanlega máli eins og ástandið í sjónum, kuldi sem kom norðan úr hafi. Nú fer sjór hlýnandi þannig að ýmislegt er að breytast. En þetta skiptir ekki meginmáli heldur framtíðin.