2004-02-24 15:11:31# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Margir góðir forustumenn Íslendinga í gegnum aldirnar hafa gert samninga sem þeir voru ekki ánægðir með. En í stöðunni var kannski ekki annað hægt að gera. Ég ætla ekki að segja að í þeirri stöðu sem hæstv. utanrrh. var þegar hann gerði þann samning sem núverandi skipting stofnsins byggist á hafi hann þurft að gera þetta. Ég var á móti því að hann gerði þann samning á sínum tíma. En hann gerði hann. Síðar, þegar sá samningur kom hér til umræðu, gerði ég grein fyrir þessari afstöðu minni en ég greiddi ekki atkvæði gegn honum. Ég tel að það skipti hins vegar máli þegar hæstv. utanrrh. er að fara til samninga og er í miðjum samningaklíðum að menn viti að þingheimur stendur ekki á bak við það að Norðmönnum verði gefið meira eftir.

Hins vegar fagna ég því að í ræðu hæstv. ráðherra fannst mér hann taka af skarið um að hann mundi ekki gefa eina síld eftir til viðbótar. Það er töluvert annað en ég las úr fyrri ummælum hæstv. ráðherra hérna áðan þegar hann var að segja að nokkur þúsund tonn af síld skiptu ekki máli varðandi góðan frið við Norðmenn. Þau skipta máli.

Mig langar að rifja það hér upp að þessir vísindamenn sem ég nefndi til sögunnar áðan sögðu í grein sem þeir skrifuðu 1980 að eina takmörkunin sem hefði þurft að setja til þess að koma í veg fyrir eyðingu stofnsins hefði verið að setja á árunum fyrir 1970 reglur um lágmarksstærð síldar í afla sem vernduðu núll til eins árs árganginn. Þeir voru að drepa síld sem ekki var eins árs gömul. Einungis 0,1% af árganginum 1965 náði fjögurra ára aldri. Svona höguðu Norðmenn sér. Það kemur ekki til mála að við förum að verðlauna þá með því að láta þá fá enn meira en þeir hafa í dag.