2004-02-24 15:13:39# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það þjónar út af fyrir sig engum tilgangi að við förum að semja hér við sjálfa okkur í ræðustól á Alþingi. Það verður engin niðurstaða af því. Hins vegar er umræðan mjög gagnleg og nauðsynleg og ég þakka fyrir hana.

Það sem ég átti við þegar ég talaði um nokkur þúsund tonn af síld er að ég tel, og ég skal endurtaka það, að t.d. 3.000--5.000 tonn af síld séu ekki af þeirri stærðargráðu að þau réttlæti upplausn í samskiptum Íslands og Noregs. Hvaða efnahagslega stærð er það fyrir stórveldið Noreg? Hvaða máli skiptir það í efnahagslegu samhengi? Það skiptir meira að segja tiltölulega litlu máli fyrir Ísland sem er efnahagslega miklu minna. En fiskveiðar skipta okkur þó hlutfallslega miklu meira máli en Norðmenn. Það var þetta sem ég var að reyna að segja. Ég skal endurtaka það að menn mega ekki láta þetta gerast. Það er ekki þar með sagt hver eigi að taka það á sig.

Ég hef endurtekið þá afstöðu mína hérna að ég tel enga ástæðu til endurskoðunar á þessum samningi miðað við það hvernig hann var gerður á sínum tíma. Engar þær breytingar hafa orðið sem réttlæta neinar meiri háttar breytingar á honum. En það eru Norðmenn að fara fram á. Þeir eru að fara fram á meiri háttar breytingar. En minni háttar breytingar koma að sjálfsögðu alltaf til greina hvort sem það er af okkar hálfu og að sjálfsögðu eiga þær líka að koma til greina af hálfu annarra samningsaðila.