2004-02-24 15:25:48# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nokkuð hissa á spurningum skipstjórans, hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar. Afstaða mín er afskaplega skýr. Ég tel það minni háttar brot ef fiskur fer fyrir borð af vangá eða vegna þess að menn ráða ekki við aflann vegna veðurs eða af öðrum ástæðum, sem hv. þm. þekkir vel. Hins vegar er það ávallt meiri háttar brot ef það er gert af ásetningi.

Það er hins vegar ekki mitt, í ræðustól á Alþingi, að dæma um hvort hér var um meiri háttar eða minni háttar brot að ræða. Málið var meðhöndlað af norsku strandgæslunni sem minni háttar brot. Það var það sem ég sagði hér.

Ég ætla ekki að setjast sjálfur í dómarasæti þar um. Ef hv. þm. treystir sér til að vera dómari í þessu máli þá er það hans mál. Ég ætla ekki að reyna það.