Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 16:04:26 (4562)

2004-02-24 16:04:26# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[16:04]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst það ekki bæta málið nema síður sé að hafa ákvæðið svo opið. Ef það væri svo, sem ég verð því miður að draga í efa að innstæður séu fyrir, að andrúmsloftið í samskiptum aðila sé eitthvað að skána og menn séu að talast við af einhverju viti og glitti undir samkomulag, þá bætti það ekki málið að vaða inn með þetta ákvæði til bráðabirgða svona, opið og óskilgreint eins og það er. Þess þá heldur ætti að leggja það til hliðar, vinna heimavinnuna sína, ná samkomulagi um einhverjar tillögur og taka svo nauðsynlegar heimildir inn í lög sem þarf til að fullnusta þær.

Það er ekki út í bláinn að hér skuli talað um 10--12 m stíflu. Það er niðurstaða sérfræðinga sem hafa unnið framkvæmdaáætlanir Landsvirkjunar. Það stendur í skýrslunni, drögum þeirra að matsáætlun, með leyfi forseta:

,,Landsvirkjun hefur kannað ítarlega hækkun vatnsborðs frá allt að 2 m upp í 12 m. Niðurstaða þessara kannana er að til að hægt sé að koma í veg fyrir truflanir í rekstri og til að draga úr óeðlilega miklu sliti vatnsvéla þarf að hækka stíflu um 10--12 m.`` --- Punktur.

Kannast hæstv. umhvrh. ekki við þetta? Þetta er það opinbera plagg sem liggur fyrir. Auðvitað veit ég að af hálfu heimamanna hefur verið reynt að koma að einhverjum öðrum hugmyndum en þessari blindu tillögu einni um mikla hækkun stíflunnar, sandsöfnun í lóni, sem þarf að losa á 10--15 ára fresti án þess að menn hafi hugmynd um hvað eigi að gera við sandinn. Það er út úr þessum farvegi sem menn vilja einmitt komast.

Liður í því og það langskynsamlegasta er auðvitað að taka bráðabirgðaákvæði III út úr frumvarpinu, láta menn vinna þessa heimavinnu og leggja þá á borðið samkomulag um einhverjar lausnir í þessum efnum sem friður getur orðið um. Þetta er ekki aðferðin.