Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 16:08:16 (4564)

2004-02-24 16:08:16# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Það þarf ekki að lögfesta neitunarvald heimamanna gagnvart því sem er bannað samkvæmt lögum í dag. Það er mikil fjallabaksleið að fara. Þessi framkvæmd er bönnuð samkvæmt lögum. Það þarf ekki að lögfesta neitunarvald gagnvart því sem fyrir er bannað samkvæmt lögum. Það er auðvitað verið að snúa hlutunum á haus að reyna að selja mönnum það með þessari röksemdafærslu.

Hér er opnað á heimild til að hækka stífluna. Eða er hæstv. umhvrh. tilbúin til að svara því hér og nú, í anda röksemdafærslu sinnar, hvort fella megi niður orðin ,,heimilað hækkun stíflu við inntak Laxárstöðva I og III efst í Laxárgljúfri``, og að í staðinn standi í ákvæði til bráðabirgða III: ,,Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. er heimilt að fram fari mat á umhverfisáhrifum á ...`` o.s.frv.?

Má taka út heimildina til að samþykkja stífluhækkun en taka inn leyfi til þess að fram fari mat á umhverfisáhrifum á einhverri tiltekinni framkvæmd sem samkomulag væri orðið um að láta fara í slíkt mat? Þá værum við að tala um allt aðra hluti. Þá væri lagabremsuvaldið áfram á sínum stað, eins og það hefur verið síðan árið 1974. Þá fyrst að samkomulag lægi fyrir um tiltekna útfærslu á framkvæmd og að undangenginni jákvæðri niðurstöðu úr mati á umhverfisáhrifum er tímabært að koma með málið hingað inn og lyfta lagaþakinu frá 1974. Fyrr ekki.