Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 16:16:28 (4569)

2004-02-24 16:16:28# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[16:16]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Rifjuð hefur verið upp í þingsölum forsaga málsins fyrir rúmum 30 árum og hversu miklar deilur ríktu um þau áform sem þá voru uppi og framkvæmdir sem hafnar voru á sínum tíma, sem stóðu árum saman, og komu að lokum inn í þingsali og Alþingi setti löggjöf um málið til þess að ná niðurstöðu í því og skipa því til frambúðar, og eftir þeim lögum hafa menn starfað til þessa. Grundvallaratriðið í þeim hefur verið það að hér sé ekki um að ræða svæðisbundið hagsmunamál, heldur landsmál. Alþingi hefur ákveðið að skipa málum þannig að það sé ákvörðun Alþingis ef breyta eigi því sem þá varð niðurstaða um, að það verði ekki gert nema með ákvörðun Alþingis, kjörinna fulltrúa þjóðarinnar en ekki einvörðungu sjónarmiða þeirra sem beinna hagsmuna eiga að gæta í því héraði sem málið varðar.

Því vil ég gera athugasemdir við það sem fram kemur í greinargerð með frv. til útskýringar á ákvæði til bráðabirgða III sem hér hefur verið mikið til umræðu en þar segir, með leyfi forseta:

,,Bráðabirgðaákvæðinu er því ætlað að tryggja að lögin um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu standi ekki í vegi fyrir framkvæmdum sem aðilar máls, þ.e. Landsvirkjun og Landeigendafélag Laxár og Mývatns, yrðu sammála um að nauðsynleg væru til að leysa þá erfiðleika sem verið hafa í rekstri virkjunarinnar að því gefnu að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hefði farið fram.``

Aðilar máls eru ekki bara Landsvirkjun og landeigendafélagið. Aðilar máls eru Alþingi, fulltrúar þjóðarinnar. Þess vegna kemur mér það við og öðrum þingmönnum og við höfum ákveðið að hafa þær leikreglur að banna allar slíkar framkvæmdir.

Í ákvæði til bráðabirgða III er verið að leggja til að við breytum þessum leikreglum, að við breytum þeim þannig að við afsölum okkur rétti til þess að hafa skoðun á því sem menn ætla að gera og komast að niðurstöðu um það hvort við viljum leyfa það. Verið er að leggja til að við felum öðrum aðilum nánast opinn víxil til þess að ákveða hvað eigi að gera.

Ég vil segja það strax, herra forseti, að ég er ósammála því. Ég er einfaldlega ósammála því að víkja frá þeim meginleikreglum sem eru í gildandi lögum og sem er líka að finna í þessu frv. að þetta sé mál Alþingis.

Ég get vel fallist á það að skoða hugmyndir sem menn koma sér saman um heima í héraði, landeigendafélag, sveitarstjórn og Landsvirkjun, um einhverjar breytingar. Ég vil ekki fella neina dóma um það fyrir fram hvaða skoðun maður kynni að hafa á þeim tillögum. En ég tel að þessir aðilar eigi að koma sér saman um þær og bera þær fyrir þingið. Síðan skulum við kynna okkur þær, meta áhrifin af þeim og komast að niðurstöðu um það hvort við víkjum frá þessum meginreglum laganna. Þetta er mitt viðhorf í málinu.

Þess vegna er ég ekki fylgjandi því og reyndar andvígur því að ákvæði til bráðabirgða sé yfir höfuð í frv. Það má að mínu mati taka úr því og lagfæra þau ákvæði sem kveða á um heimild til þess að hækka stífluna sem er auðvitað það sem mestur ágreiningurinn stendur um, að Alþingi skuli ef þetta verður samþykkt veita Umhverfisstofnun heimild til þess að fallast á hækkun stíflunnar án þess að nokkur takmörk séu á þeirri heimild og nokkur leiðarvísir fyrir stofnunina á því með hvaða hætti hún ætti að taka á slíkum umsögnum sem fram kynnu að koma. Það mætti því hugsanlega að mínu mati láta ákvæði til bráðabirgða III standa með þeirri lagfæringu að taka þessa heimild út.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna verið er að sækjast eftir þessari breytingu nú þegar umrædd virkjun hefur starfað í um 30 ár eftir því sem ég best veit. Hvers vegna? Hvað veldur því að talið er nauðsynlegt að ráðast í breytingar núna? Það fylgja engar upplýsingar um áform Landsvirkjunar í þessu frv. Engar upplýsingar um hvaða áhrif hækkun stíflunnar hefði á virkjunina. Það vantar því í raun og veru allar upplýsingar sem menn þurfa til að geta tekið afstöðu til þeirra. Það er mjög sérstakt þegar um er að ræða landsvæði þar sem lögfest er það meginsjónarmið að engar breytingar af þessu tagi verði. Niðurstaða sem Alþingi komst að eftir harðvítugar deilur, og mér finnst mjög ógætilegt að leggja til breytingar á þessu eins og gert er í frv. Ég er ekki viss um að það hjálpi mikið upp á að ná niðurstöðu í þessu máli sem ásættanleg kann að vera að mati heimamanna og að mati Alþingis.

Mér finnst hins vegar liggja nokkuð ljóst fyrir af því að hér hefur nokkuð verið rætt um atvinnuþátt málsins að breytingar sem kunna að verða gerðar á virkjuninni muni augljóslega leiða til þess að störfum fækki. Ég held að það geti ekki farið hjá því hvernig sem menn velta málinu fyrir sér en að þær breytingar sem Landsvirkjun kann að hugsa sér að gera á virkjuninni hljóti að leiða til þess að störfum fækki. Ef menn líta svo á að atvinnuþátturinn í málinu vegi þungt, þau 7--8 ársverk sem eru við þessa virkjun, ættu breytingar á hækkun stíflunnar að vinna á móti þeim sjónarmiðum. Ég vek athygli á því þannig að menn hafi það í huga í þessari umræðu líka.

Hins vegar held ég að það sé sjálfsagt úr því málið er komið fyrir þingið, að þingið afli sér upplýsinga um áform Landsvirkjunar eins og eðlilegt er. Og ég mun kalla Landsvirkjun fyrir iðnn. til þess að gefa þinginu upplýsingar um áform sín þannig að við getum þá fengið að vita frá þeim sjálfum hvaða hugmyndir þeir eru með og til hvers þær kunna að leiða. Mér finnst það eðlilegur hlutur úr því málið er borið inn í þingsali.

Virðulegi forseti. Ég velti aðeins fyrir mér þessu bráðabirgðaákvæði. Kveðið er á um það að mat á umhverfisáhrifum eigi að fara fram. Nú liggja fyrir þinginu tvö frv. um breytingar á þeim ákvæðum sem eru í lögunum um mat á umhverfisáhrifum, annars vegar frv. um breytingu á lögum um umhverfismat og hins vegar frv. um breytingu á lögum um skipulags- og byggingamál. Mér sýnist að verði unnið umhverfismat á fyrirhugaðri hækkun stíflunnar, þá verði unnið eftir nýju ákvæðunum ef þau verða að lögum. Og þá velti ég því fyrir mér hvaða áhrif þau hafi á þennan feril. Mér sýnist að þessi tvö frv. breyti málinu þannig að umhverfismat leiði ekki til neinnar niðurstöðu. Það er einfaldlega lagt mat á tilteknar framkvæmdir en ekki gefið út álit eða nein niðurstaða á framkvæmdunum eins og er í dag þar sem Skipulagsstofnun hefur lagst gegn eða mælt með framkvæmdum.

Á Umhverfisstofnun að fá þetta umhverfismat án nokkurs álits? Fylgir með þessu umhverfismati álit Skipulagsstofnunar eins og gert er ráð fyrir að verði samkvæmt nýju frumvörpunum, almenna reglan að Skipulagsstofnun gefi út álit og þar geti menn haft álit stofnunarinnar á slíku umhverfismati?

Mér sýnist líka að Umhverfisstofnun verði í nokkrum vanda við að vega og meta það umhverfismat sem fyrir þá verður lagt ef þetta lagaákvæði nær fram að ganga. Og hvað með stöðu ráðherra? Er gert ráð fyrir að ákvörðun Umhverfisstofnunar sé kæranleg til ráðherra? Mér heyrðist á ráðherra fyrr í umræðunni að svo væri og þá er málið í raun og veru komið til ráðherrans sem ber málið fram.

Ég vil líka vekja athygli á öðru af því að gert er ráð fyrir því í þessu ákvæði að fyrir þurfi að liggja samþykki landeigendafélagsins fyrir hækkun á stíflu. Ég hef aflað mér samþykkta landeigendafélagsins, sem var ekki auðvelt því að þær samþykktir voru ekki auðfengnar, en í þeim eru ekki neinar samþykktir eða reglur um það hvernig landeigendafélagið kemst að niðurstöðu. Ég spyr vegna þess að augljóslega hljóta að takast á í þessu máli annars vegar Landsvirkjun og hins vegar landeigendafélagið. Trúlega verða sjónarmiðin skipt í landeigendafélaginu og þá þarf það að komast að niðurstöðu eftir einhverjum leikreglum sem gilda í því félagi, og hvernig eru þær? Þær er ekki að finna í samþykktum félagsins. Fylgir eitt atkvæði hverri jörð? Fylgir eitt atkvæði hverjum ábúanda eða eitt atkvæði hverjum eiganda? Eða hvernig eru leikreglurnar? Hvernig mun landeigendafélagið útkljá deilumál í sínum hópi? Ef þessar leikreglur eru óljósar býður það augljóslega hættunni heim að menn sveigi þá reglurnar til eftir því sem henta þykir hagsmunum þeirra sem beita sér fyrir slíku. Og getur verið að á einni jörð séu kannski tíu manns með atkvæðisrétt og á annarri jörð kannski bara einn? Eða hvernig eru þessar reglur?

Ég held að þetta verði líka að liggja fyrir. Því ef menn ætla að breyta lögunum með því að setja slík undanþáguákvæði varðandi þessa tilteknu hækkun eru menn auðvitað að gefa virkjunaraðilanum, Landsvirkjun, stöðu til þess að sækja á landeigendafélagið til að samþykkja áform sín. Það er það sem menn eru að gera. Menn eru að gefa þeim sem sækir á í málinu, og ég býst við að það sé Landsvirkjun, það séu ekki aðrir sem sæki á um framkvæmdir í þessu máli en Landsvirkjun, menn eru þá að gefa Landsvirkjun stöðu til þess að geta knúið sitt fram sem þeir geta ekki að óbreyttum lögum og að samþykktu þessu frv. án þessa bráðabirgðaákvæðis. Ég sé því ekki annað en að menn séu í raun og veru að taka afstöðu með þessu ákvæði með virkjunaraðilanum. Það er eiginlega það sem mér finnst blasa við í málinu.

Ég vil því mælast til þess, virðulegi forseti, að umhvn. skoði málið vandlega og kanni það hvort ekki sé unnt að breyta þessu ákvæði til bráðabirgða, taka út heimildir til þess að hækka stífluna eða jafnvel fella ákvæðið alveg brott. Ég get út af fyrir sig alveg fallist á að það sé ásættanleg niðurstaða að veitt verði heimild til að láta fara fram umhverfismat þannig að menn geti þá haft í fyrsta lagi valkostina sem á að meta og í öðru lagi mat á þeim. Þingið geti haft þá til athugunar ef menn kjósa að leggja málið fyrir þingið þegar það er komið sem þetta leiðir af sér.

Virðulegi forseti. Fleira ætla ég ekki að segja um málið að sinni. Afstaða mín er afar skýr í þessum efnum. Mér finnst þetta vera umhverfismál, náttúruverndarmál og ég er algjörlega sammála meginsjónarmiði frv. að hafa hlutina með því fyrirkomulagi sem þar er lagt til. Þetta er þjóðarmál. Þetta er ekki staðbundið mál. Og ég tel að við eigum að fara mjög varlega í að víkja frá þeim meginlínum sem við höfum búið við undanfarin 30 ár.