Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 16:33:13 (4571)

2004-02-24 16:33:13# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[16:33]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Menn hafa ekki alltaf sömu skoðun í einum flokki. Það fer ágætlega á með mér og hæstv. umhvrh. Ég kvíði því ekkert þó hún setjist á mig, ég er ekki viss um að það sé svo mikill þungi, svo ég svari honum í nokkurri gamansemi. (ÖS: Ég átti nú við formann flokksins sem er ögn þyngri.) Ég vil svara fsp. hv. þm.

Ég tel ólíklegt að einhverjar upplýsingar um hvernig áformin eru sem Landsvirkjun er með í huga eða ávinningurinn af þeim breyti afstöðu minni. Ég vil þó ekki alveg útiloka það. Ég vil fá að heyra hvað hún er með á prjónunum og til hvers það leiðir varðandi rekstur virkjunarinnar. Mér finnst rétt að gefa mönnum möguleika á að útskýra mál sitt áður en ég tek afstöðu til þess. En fyrir fram finnst mér ólíklegt að það verði nokkur breyting á afstöðu minni, ég segi það alveg eins og er. Það þarf stórkostlega hluti til þess.

Ég hef ekki verið ófeiminn við að tala fyrir því að virkja á svæðum eins og Eyjabökkum og fyrir austan, við Kárahnjúka, vegna þess að þau atvinnumál skipta líka máli, ekkert síður en umhverfismál. En í þessu máli finnst mér ekki rétt að stíga þau skref sem bráðabirgðaákvæðið er að opna fyrir. Mér finnst að menn megi dálítið gæta sín á því að þrátt fyrir stuðning við stórkostleg áform á Austurlandi í virkjun megi menn ekki gefa undir fótinn að við séum tilbúin að samþykkja hvað sem er í umhverfismálum. Mér finnst t.d. að í Þjórsárverum séu menn komnir út á ystu nöf og það þurfi mjög að gæta að því að Landsvirkjun fari ekki út yfir ystu nöf. Það eru takmörk á öllu. Á Laxár- og Mývatnssvæðinu er ég almennt þeirrar skoðunar að það eigi ekki að heimila framkvæmdir af þessu tagi.