Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 16:53:31 (4573)

2004-02-24 16:53:31# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[16:53]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi hefði ég gjarnan viljað fá að teljast Þingeyingur áfram, ef hv. þingmanni væri sama, borinn og barnfæddur Norður-Þingeyingur.

Í öðru lagi virðist hv. þm. Halldór Blöndal fara létt með það að snúa orðum manna algerlega við. Hann lagði mér og reyndar hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni þau orð í munn að við teldum með öllu ástæðulaust að athuga hvort samkomulag gæti orðið heima fyrir um einhverjar breytingar. Ég var nýfarinn úr ræðustól eftir að hafa sagt nákvæmlega hið gagnstæða. Akkúrat hið gagnstæða. Ég sagði að það væri byrjað á öfugum enda. Menn ættu að vinna heimavinnuna sína fyrst og ná samkomulagi í héraði, hagsmunaaðilar, landeigendur og Laxárvirkjun. Þá væri tímabært að koma með málin hingað inn og kanna vilja Alþingis til að breyta lögunum frá 1974, í sama anda og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ræddi í framhaldinu. Með öðrum orðum: Ég var nýbúinn að segja akkúrat hið gagnstæða við það sem hv. þm. Halldór Blöndal lagði mér ranglega í munn í framhaldinu.

Varðandi áhrif sandburðarins niður Laxá á veiði, t.d. í neðri hluta Laxár, þ.e. í Laxá í Aðaldal og laxasvæðinu, þá er það því miður þannig, þó að fyrir liggi lauslegar athuganir eins, tveggja eða þriggja fræðimanna á mögulegum áhrifum, að á þeim skortir meira og minna allrar grundvallarrannsóknir. Ég vek athygli hv. þm. á því hvernig það er orðað í skýrslu Landsvirkjunar. Þar segir:

,,Margir sérfræðingar telja líklegt að seiðaframleiðsla árinnar aukist ef sandburður minnkar. Ástæða þess er sú að skjól fyrir seiði er meira eftir því sem botn er úfnari auk þess sem framleiðsla á smáþörungum og smádýrum (fæða seiðanna) eykst. Það kann því að vera sameiginlegur hagur Landsvirkjunar og veiðiréttarhafa að draga úr sandmagni í Laxá.``

Það kann að vera sameiginlegt hagsmunamál, segja þeir. Lengra treysta menn sér ekki til að ganga, eðlilega ekki, vegna þess að þarna skortir í raun allar rannsóknir. Þær ættu að sjálfsögðu að fara fram fyrst áður en farið er út í að bollaleggja um framkvæmdir af þessu tagi.