Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 16:55:44 (4574)

2004-02-24 16:55:44# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[16:55]

Halldór Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðara atriðið þá er það rétt, að það er ekkert absalútt í sambandi við lífríki ánna né lífríki hafsins. Tumi Tómasson hefur gefið sitt álit. Ég vitnaði til hans. Menn verða síðan að velta fyrir sér hvort það er trúverðugt eða ekki. Ég á hinn bóginn treysti því að það sem hann segir eigi við rök að styðjast.

Í annan stað vil ég segja hið sama og ég hef oft sagt áður: Menn fara ekki í umhverfismat og leggja ekki í mikinn kostnað nema menn sjái fram úr málinu. Það er nauðsynlegt að um þetta verði umræða á þeim grundvelli að skoðað verði hvort landeigendafélagið fellst á tillögur Landsvirkjunar. Við getum líka snúið því við þannig að skoðað verði hvort Landsvirkjun fellst á tillögur landeigendafélagsins. Ég vil bæta því við að viðkomandi sveitarstjórnir hljóta einnig að vera inni í því máli. Ef þessir aðilar ná samkomulagi þá finnst mér rétt að umhverfismat fari fram á þeim möguleikum sem þar er rætt um.

Ég álít að forsendan fyrir því að slíkar umræður fari fram sé sú að þetta frv. verði samþykkt.