Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 17:00:53 (4576)

2004-02-24 17:00:53# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Halldór Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Ákvæði til bráðabirgða III er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. getur Umhverfisstofnun heimilað hækkun stíflu við inntak Laxárstöðva I og III efst í Laxárgljúfri, að undangengnu mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 106/2000, og að fengnu samþykki Landeigendafélags Laxár og Mývatns.``

Þetta er alveg skýrt. Hér er ekki skorast undan neinu. Þetta er eðlileg lagagrein í þessu samhengi en á hinn bóginn leynir sér ekki á orðalagi hv. þm. að hann er á móti hækkun stíflunnar. Ég skil ekki af hverju hv. þm. er að reyna að fela það með öðru orðinu. Mér finnst furðulegt að hv. þm. skuli ekki hafa einurð til að tala einum rómi um þetta mál í staðinn fyrir að reyna að vera tvíraddaður. Það trúir honum enginn þegar hann fer að tala fyrir því að samkomulag takist um hækkun stíflunnar um svo og svo marga metra. Það trúir því enginn.