Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 17:01:06 (4577)

2004-02-24 17:01:06# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[17:01]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vildi rifja upp nokkur meginatriði þessa máls þar sem við nálgumst lok 1. umr. um frv., hinnar stystu og alls verða þær þrjár. Þessi hefur aðeins tekið tvo daga. Ég spái því að komi þetta þingmál aftur inn í þingsalinn verði umræðurnar nokkru ítarlegri en þær hafa verið við þessa umræðu.

Hæstv. umhvrh. hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að leggja þetta frv. fram, frv. um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, eins og það heitir. Það er ekki vegna þess að frv. fjalli um það heldur hitt, að það fjallar um hið gagnstæða, að aflétta verndun á Mývatni og Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu.

Hæstv. umhvrh. hóf í gær mál sitt á að leggja áherslu á einmitt þetta, að þetta frv. fjallaði ekki umhverfis- og náttúruvernd heldur fyrst og fremst rekstrarörðugleika Laxárvirkjunar. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra, að þess vegna væri þetta frv. til komið. Það er heiðarlegt að segja frá þeim tildrögum málsins.

Menn þurfa ekki annað en að fara inn á vef Landsvirkjunar til að sjá hvaða áform eru uppi. Þar er ekki verið að reikna eitt eða neitt út, eins og hv. þm. Halldór Blöndal hefur vikið að í máli sínu heldur er talað um áform Landsvirkjunar. Þetta er á vefnum hjá þeim.

Þeir hafa komist að ákveðinni niðurstöðu. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Landsvirkjun áformar að hækka núverandi stíflu efst í Laxárgljúfri og mynda lítið inntakslón til að koma í veg fyrir erfiðleika við rekstur Laxárstöðva. Stefnt er að hækkun stíflunnar um 10--12 m og verður stærð inntakslóns 0,25--0,34 ferkílómetrar.``

Þetta eru áform Landsvirkjunar. Tilgangurinn hefur verið tíundaður hér. Mikill sandburður veldur því að virkjunin er óhagkvæm og menn eru að reyna að ráða á því bót. Til að ná þessu fram þarf að ryðja ákveðnum hindrunum úr vegi. Einnig þetta er tíundað í skýrslu Landsvirkjunar.

Í fyrsta lagi þarf að koma til leyfi iðnaðarráðherra samkvæmt raforkulögum, í öðru lagi þarf að koma framkvæmdarleyfi sveitarstjórnar og í þriðja lagi Umhverfisstofnunar. En síðan segir:

,,Samkvæmt þessum lögum er hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask óheimil á 200 m breiðum bakka meðfram Laxá báðum megin, nema leyfi Umhverfisstofnunar komi til. Í lögunum eru auk þess ákvæði um að breytingar á hæð vatnsborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna séu einnig óheimilar nema til verndunar og ræktunar þeirra.`` --- Í lögunum eru þessi ákvæði einnig til staðar.

Um það fjallar þessi deila hér í þingsal. Það er verið að aflétta þessu ákvæði laganna með bráðabirgðaákvæði III, því að þar segir:

,,Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. getur Umhverfisstofnun heimilað hækkun stíflu við inntak Laxárstöðva I og III efst í Laxárgljúfri, að undangengnu mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 106/2000, og að fengnu samþykki Landeigendafélags Laxár og Mývatns.

Ákvæði þetta fellur úr gildi 31. desember 2014.``

Í tíu ár á Landsvirkjun að hafa eins konar veiðiheimild á bændur á þessu svæði til að telja þá á nauðsyn þess að hækka stífluna. Út á það gengur þetta mál. Mér finnst það dapurlegt hlutskipti fyrir hæstv. iðnrh. ... --- afsakið, umhvrh. landsins að flytja þetta frv. Nær hefði verið að hæstv. iðnrh. hefði forgöngu um málið. Það er ekki undarlegt að maður mismæli sig og beini orðum sínum til hæstv. umhvrh. sem hæstv. iðnrh. Það væri að sjálfsögðu iðnrh. sem ætti að svara fyrir málið.

Landeigendafélagið hefur gert sinn vilja ljósan. Sunnudaginn 15. febrúar var ályktað á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt lögum nr. 36/1974 er breyting á rennsli Laxár vegna raforkuframleiðslu óheimil. Með setningu laganna fullnægði Alþingi ákvæðum samnings Laxárvirkjunar, Landeigendafélags Laxár og Mývatns og ríkisstjórnar Íslands frá 1973, Laxárdeilusamningarnir, varðandi þetta atriði, en með samningunum var Laxárvirkjun heimiluð notkun vatns í Laxá til starfsemi sinnar, af hálfu landeigenda.

Samkvæmt gildandi samþykktum landeigendafélagsins er félaginu ekki unnt að heimila hækkun á yfirborði Laxár. Af þeirri ástæðu var tillögu þess efnis vísað frá afgreiðslu á fundi í félaginu fyrir fáum árum. Aukinn meiri hluta þarf til að breyta samþykktum félagsins.

Stjórn Landeigendafélags Laxár og Mývatns hafa verið kynnt þau áform umhverfisráðherra að flytja á Alþingi tillögu um ákvæði til bráðabirgða er geri Umhverfisstofnun kleift að undangengnu umhverfismati og að fengnu samþykki landeigendafélagsins að heimila hækkun stíflu Laxárvirkjunar í Laxárgljúfri, þrátt fyrir fyrrgreint bann laganna frá 1974.

Stjórninni eru ljós þau vandkvæði sem talin eru á starfrækslu Laxárvirkjunar vegna framburðar aurs og íss. Stjórnin telur unnt að ráða þar bót á án hækkunar á yfirborði árinnar.

Stjórnin telur því ekki vera tilefni til að víkja með neinum hætti frá ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. laga nr. 36/1974 í því skyni að heimila hækkun stíflunar í Laxá og telur að með því væri vegið að forsendum þess samkomulags um starfrækslu Laxárvirkjunar sem gert var 1973.``

Þetta eru stór orð. Þeir telja vegið að forsendum þess samkomulag sem gert var 1973. Með samkomulagi sem undirritað var í maímánuði 1973 lauk einhverri harðvítugustu deilu síðari tíma, sem hófst árið 1969 og lauk að fjórum árum liðnum með þessu sögulega samkomulagi og lagasetningu í kjölfarið sem hér hefur verið vísað til.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég mun hlusta af athygli á ræðu hæstv. umhvrh. í lok þessarar umræðu til að skýra hennar málstað og hvernig á því stendur að umhvrn. og hæstv. umhvrh. stendur ekki betur vörð um hagsmuni náttúrunnar en raun ber vitni.