Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 17:32:36 (4579)

2004-02-24 17:32:36# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[17:32]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Fremur fannst mér varnarræða eða afsökunarræða hæstv. umhvrh. aum, að hæstv. ráðherra gæti ekki látið umhverfið vera í forgangi, virt skyldur sínar og sýnt ábyrgð gagnvart því. Það á að ráða ferð því að hæstv. ráðherra yrði að taka tillit til fleiri hluta. Þetta minnir mann á upphafsdaga hæstv. ráðherra í embætti þegar hún afgreiddi fyrirhugaðar framkvæmdir á Eyjabökkum einfaldlega með því að hún væri bundin af afstöðu ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum. Við það sat. Svo mikið fyrir umhverfið. Því miður virðist hæstv. umhvrh. hvað þetta varðar ætla að enda á svipuðum nótum og hún byrjaði hvað metnað snertir fyrir hönd málaflokksins.

Hæstv. ráðherra segir í öðru lagi að hún telji að ekkert eigi að útiloka fyrir fram og það megi skoða málin. Enginn hefur hafnað því. Þvert á móti. Þó að hæstv. ráðherra og hv. þm. Halldór Blöndal rembist eins og rjúpan við staurinn við að reyna að sannfæra menn um að þetta snúist allt um að fá menn í góðu bróðerni til að skoða hlutina gengur það einfaldlega ekki upp. Það er ekkert í vegi þess að Landsvirkjun reyni að ná samkomulagi við landeigendur um einhverjar mögulegar aðgerðir, að menn rannsaki líkleg umhverfisáhrif þeirra aðgerða. Það er aldeilis ekki svo að rannsóknir séu bannaðar í Mývatnssveit og við Laxá. Hitt kann að vera að það orki tvímælis að hið lögformlega umhverfismat á tiltekinni framkvæmd fari fram ef það hefur í för með sér brot á lögunum nema það sé heimilað með pósitífu ákvæði en það er auðvitað hægt. Hefur hæstv. umhvrh. aldrei heyrt svonefnd þrátt-fyrir-ákvæði? Hefur hv. þm. Halldór Blöndal aldrei tekið þátt í því að samþykkja skerðingar á lögum með svokölluðu þrátt-fyrir-ákvæði? Ég skyldi ætla það. (Forseti hringir.) Það er eitthvað skrýtið við tímamælinguna, virðulegur forseti. Klukkan gekk ekki hjá mér. Hvað um það, tíminn er væntanlega búinn og ég skal láta ...

(Forseti (JBjart): Hv. þm. fær annað tækifæri.)

Já, ég sá ekki að klukkan gengi í borðinu. Það sem ég ætlaði að leggja áherslu á, virðulegur forseti, er fyrst og fremst að það er ekkert í vegi þess að málsaðilar ræði saman um að reyna að koma sér saman um einhverjar lagfæringar þarna, rannsaki umhverfisáhrif þeirra. Síðan er hægt að leggja málið fyrir samkvæmt hinum formlega hætti. Fyrr er það ekki tímabært.