Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:07:36 (4587)

2004-02-24 18:07:36# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:07]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Það er rétt hjá hæstv. umhvrh. að Samf. fellst ekki á lagafrumvörp um hækkun stíflu nema það sé ljóst til hvers hún muni leiða og að hún muni ekki hafa umhverfisáhrif sem neikvæð geti talist.

En auðvitað kemur til greina að breyta inntaksmannvirkjum ef um það næst sátt milli landeigenda og virkjunarmanna og sú sátt er talin skynsamleg. Það er auðvitað þannig. En þá verður enn einn aðili að málinu, þ.e. þjóðin með fulltrúum sínum á þingi og í ríkisstjórn, að telja þá sátt og þá aðferð þannig að hún sé í beinu framhaldi af því hlutverki sem menn tóku að sér árin 1973 og 1974 í þessu máli.

Það er gaman að fram skuli komnar tölur um afkomu Laxárvirkjunar. Það er í fyrsta sinn sem þær heyrast í þessari umræðu. Umhvn. mun að sjálfsögðu kalla eftir slíkum tölum og iðnn. heyrist mér líka. Nefndirnar munu fara mjög vandlega í gegnum þær og í gegnum önnur rök sem Landsvirkjun leggur væntanlega fram fyrir máli sínu, beint eða í gegnum hæstv. umhvrh. En það er furðulegt að þau skuli ekki koma fram fyrr. Enn á eftir að gera allar þær rannsóknir og tilraunir sem menn hafa sagt að kynnu að bjarga málinu án þess að fara í hækkun stíflunnar efst í Laxárgljúfri. Þar stendur hnífurinn nú aðallega í kúnni, þannig að ég noti annað dónalegt dýranafn.