Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:10:55 (4589)

2004-02-24 18:10:55# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:10]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Það er von að hv. þm. spyrji um þetta. Það er auðvitað leiðinlegt að hæstv. ráðherra skuli ekki svara honum. Ekki ætla ég að svara fyrir ráðherrann hér en mér sýnist að hæstv. ráðherra kunni með sama hætti að koma fram með frv. um þau svæði sem nefnd voru ef Landsvirkjun eða einhverjum slíkum öflugum aðilum líst á að gott væri að fara þar í tilteknar framkvæmdir. Þá þyrfti mjög nauðsynlega á umhverfismatinu að halda. Það væri auðvitað ekki þannig að menn væru að leyfa framkvæmdirnar. Þeim dytti jafnvel ekki í hug að framkvæmdirnar kæmu til greina en þá þyrfti mikið á umhverfismatinu að halda.

Menn hafa kvartað yfir því með hæstv. umhvrh. og stefnu hennar í Stjórnarráðinu að hún virðist ekki setja nein mörk. Það virðist ekki vera neinn staður á landinu sem hún virðir þannig að þar verði ekki lengra gengið, að þar sé komið að þeim skilum að mönnum detti ekki í hug að fara í neinar framkvæmdir nema þær sem kunni að firra slysum eða bæta fyrir það sem mannskepnan hefur gert í náttúrunni. Hjá henni fyrirfinnst ekki neitt slíkt samanber þá yfirlýsingu ráðherrans að friðlýsingar séu tímabundið athæfi og á þeim eigi ekki að taka mark nema í stuttan tíma.