Erlendar starfsmannaleigur

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:13:00 (4590)

2004-02-24 18:13:00# 130. lþ. 70.5 fundur 125. mál: #A erlendar starfsmannaleigur# þál., Flm. MÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Flm. (Mörður Árnason):

Forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um erlendar starfsmannaleigur. Þessi tillaga er á þskj. 125 og 1. flutningsmaður hennar er Össur Skarphéðinsson, sem því miður varð að fara annað einmitt á þessum tíma. Þess má geta honum til afsökunar að málið hefur tvisvar áður verið á dagskrá en ekki verið tekið til umræðu.

Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga um starfsemi erlendra starfsmannaleigufyrirtækja. Markmið frumvarpsins skal vera tvíþætt: Í fyrsta lagi að tryggja að erlendir starfsmenn sem koma á vegum starfsmannaleigna til starfa á Íslandi njóti í hvívetna sambærilegra réttinda og Íslendingar á vinnumarkaði. Í öðru lagi að koma í veg fyrir dulin undirboð á vinnumarkaði og tryggja þannig samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart fyrirtækjum sem leigja vinnuafl gegnum starfsmannaleigur.

Félagsmálaráðherra hafi við samningu frumvarpsins náið samráð við verkalýðshreyfinguna. Hann skal leggja frumvarpið fyrir Alþingi eins fljótt og auðið er.``

Það er ljóst að þetta frv. er flutt í framhaldi af viðburðum sem urðu í sumar og halda nú áfram við Kárahnjúkavirkjun fyrir austan. Rökstuddur grunur leikur á að erlend starfsmannaleiga með höfuðstöðvar í Lissabon, Portúgal, hafi ráðið erlenda starfsmenn til starfa á vinnusvæði ítalska verktakans Impregilo við Kárahnjúka á kjörum sem eru lakari en lögmætt er samkvæmt virkjanasamningi sem er í gildi milli aðila íslenska vinnumarkaðarins um starfsemi við virkjanir á hálendinu.

Þetta er staðfest m.a. af ljósritum sem flutningsmenn tillögu þessarar og fleiri samfylkingarþingmenn hafa undir höndum af einstaklingsbundnum ráðningarsamningum milli einstakra starfsmanna á svæðinu og framkvæmdastjóra viðskiptasviðs starfsmannaleigunnar Select, sem heitir því ágæta nafni sem frægt er, einkum hjá íslenskum stúdentum í París og mun þar önnur vist en hjá þessari starfsmannaleigu. En þessi stjóri heitir Gualdino Diniz. Samkvæmt þessum bréfum voru portúgalskir iðnaðarmenn ráðnir á töxtum sem eru langt undir því sem samningar kveða á um á Íslandi.

[18:15]

Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafa með aðstoð túlks rætt við erlendu verkamennina á vinnusvæðinu við Kárahnjúka og tekið við yfirlýsingum sem innihalda þær upplýsingar sem þeir meta trúverðugar og má um þær fræðast í fylgiskjölum með frv. Þar kemur fram að undir lok septembermánaðar voru meira að segja hinir ólögmætu einstaklingsbundnu samningar brotnir. Starfsmenn fengu ekki þá frídaga sem samningurinn kvað á um og voru látnir vinna alla daga vikunnar fram að hádegi á sunnudegi, án aukaálags. Starfsmennirnir segjast jafnframt hafa þurft að undirrita ódagsett uppsagnarbréf. Það þýðir í reynd að starfsmannaleigan getur án fyrirvara látið þá hætta störfum. Hér er því verið að brjóta grundvallarreglur á vinnumarkaði og beita vinnubrögðum sem undir öllum kringumstæðum eru siðferðilega óverjandi. Jafnvel á tímum hörðustu stéttaátaka eru vinnubrögð af þessu tagi vandfundin í verkalýðssögu hér á landi.

Háttsemi erlendu starfsmannaleigunnar ber að skoða í ljósi þess að í Portúgal er umtalsvert atvinnuleysi. Laun eru þar almennt lægri en hér á landi og flestir þeirra sem um ræðir eru fjölskyldufeður. Starfsmannaleigan í Lissabon og þau fyrirtæki sem njóta þjónustu hennar eru þess vegna að notfæra sér erfiða stöðu og á stundum mannlega neyð.

Í samningnum sem áður er nefndur er jafnframt að finna ákvæði sem er í algerri andstöðu við leikreglur íslenska vinnumarkaðarins. Þar er kveðið á um að hægt sé að senda heim starfsmenn, m.a. ef upp kemur það sem samningurinn kallar vanhæfni eða hegðunar- og agavandamál. Samkvæmt samningnum skal þá starfsmaðurinn ekki aðeins greiða kostnað við sitt eigið ferðalag heim til sín heldur líka þess starfsmanns sem kemur í hans stað.

Þetta ákvæði hefur verið framkvæmt með þeim hætti að starfsmenn sem hafa barist fyrir rétti sínum og bættum aðbúnaði hafa verið sendir úr landi og heim þar sem slíkt fellur bersýnilega undir, með leyfi forseta, ,,hegðunar- og agavandamál``, að mati Impregilo og starfsmannaleigunnar. Fulltrúar starfsmannaleigunnar á vinnusvæðinu við Kárahnjúka hafa jafnframt túlkað smávægileg heilbrigðisvandamál, sem sum má rekja til slæms aðbúnaðar af hálfu Impregilo, sem ,,vanhæfni`` og sent þá heim.

Það er ljóst að allar hefðbundnar vinnureglur á íslenskum vinnumarkaði hafa verið þverbrotnar af starfsmannaleigunni og ítalska verktakanum Impregilo. Alþýðusamband Íslands greip inn í gang mála í sumar með vasklegum hætti. Það var ekki fyrr en æðsta forusta Alþýðusambandsins hafði látið málið til sín taka og látið glitta í sjálft verkfallsvopnið sem atburðarásin tók að breytast. Nú þegar þáltill. er í umræðu liggur fyrir ígildi yfirlýsingar af hálfu Impregilo um að allir starfsmenn, erlendir jafnt sem innlendir, njóti virkjanasamningsins sem fyrr er nefndur og það er árangur þeirra aðgerða sem verkalýðshreyfingin fór í austur við Kárahnjúka.

Deilan við Kárahnjúka hefur snúist um grundvallaratriði. Í reynd er þar í gangi tilraun til að brjóta á bak aftur áunnin réttindi íslenskra launamanna og skrúfa réttindabaráttu þeirra áratugi aftur í tímann. Ef sú tilraun tekst mun samspil samkeppnislögmála og arðsvonar fyrr en síðar ryðja sömu vinnubrögðum til rúms hjá öðrum verktökum og að lokum í öðrum atvinnugreinum. Þess vegna snýst málið ekki aðeins um atburðarásina við Kárahnjúka heldur um leið um samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Alþjóðavæðingin hefur skapað nýjar aðstæður. Hún hefur orðið til góðs en það eru líka við hana hættur. Nýr hreyfanleiki vinnuafls hefur skapað glufur fyrir fyrirtæki eins og umræddar starfsmannaleigur til að flytja vinnuafl yfir landamæri frá láglaunasvæðum yfir á hálaunasvæði. Einstaklingsbundnir ráðningarsamningar gerðir í öðru landi en því sem verkið er unnið í gera verkalýðshreyfingunni mjög erfitt um vik að fylgjast með því að ófyrirleitin fyrirtæki, eins og umrædd starfsmannaleiga, misnoti ekki neyð fátækra launamanna til að undirbjóða verð á vinnuafli í framkvæmdalandinu. Þetta er í vaxandi mæli að birtast á EES-svæðinu. Jafnaðarmenn allra landa líta að sjálfsögðu á það sem skyldu að vinna gegn þessari þróun. Það má gera með alþjóðlegu samstarfi verkalýðsfélaga en jafnframt með því að setja lög sem fortakslaust girða fyrir alla möguleika á misnotkun eins og þeirri sem starfsmannaleigan, sem Impregilo notar, hefur orðið uppvís að.

Engin lög gilda nú um starfsmannaleigur á Íslandi. Orðið starfsmannaleiga kemur reyndar hvergi fyrir í lögunum en brýnt er að lög sem reisa viðunandi skorður við starfsemi slíkra fyrirtækja verði sett hið fyrsta. Þau verða í senn að banna alla misbeitingu og skerðingar miðað við gildandi kjarasamninga í framkvæmdalandi og tryggja að verkalýðshreyfingin, samtök atvinnurekenda og ríkisvaldið hafi óheftan aðgang að upplýsingum sem þarf til að ganga úr skugga um að misneyting eigi sér ekki stað, réttindi séu virt og samningar haldnir í heiðri. Það yrði tilgangur laganna sem þessi þáltill. markar vonandi upphafið að.

Ég vil geta þess um leið og þessi tillaga er flutt á þingi að 1. flm. hennar hefur beitt sér á erlendum vettvangi fyrir sama máli. Hann hefur gert það á vettvangi EFTA, hann hefur gert það í flóttamannanefnd Evrópuráðsins sem svona mál falla undir og hann hefur gert það meðal norrænna samstarfsmanna í jafnaðarhreyfingunni. Þess má geta að hann fer í næstu viku við fjórða mann, einn þeirra er Poul Nyrup Rasmussen, fyrrv. forsætisráðherra Danmerkur, að hitta írsk stjórnvöld m.a. þessara erinda, en sem kunnugt er hafa Írar nú forustu fyrir hinu ágæta Evrópusambandi. Þær móttökur sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur fengið á erlendum vettvangi þegar hann hefur kynnt þetta dæmi hér og rætt um vandamál starfsmannaleignanna sýna að hér er um evrópskt og alþjóðlegt vandamál að ræða og það er fylgst með því hvað við gerum. Við getum jafnframt haft áhrif á hvernig þessi mál verða leyst í Evrópusambandinu og vonandi um hinn siðmenntaða heim þannig að ég taki mér enn fremur gildislægt hugtak í munn.

Ég vona að málið fái góða afgreiðslu í þinginu og legg til að það verði sent hv. félmn.