Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:43:27 (4598)

2004-02-24 18:43:27# 130. lþ. 70.6 fundur 247. mál: #A almenn hegningarlög# (reynslulausn fanga) frv., Flm. EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:43]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Andsvörin geta menn líka notað til að lýsa í stuttu máli stuðningi við mál. Ég fagna því að hv. 9. þm. Reykv. s. skuli ljá málinu stuðning sinn og ég vona að þar með fái það gott brautargengi gegnum þingið. Við höfum auðvitað tækifæri til þess á vorþinginu að taka efnislega afstöðu til þess og mér finnst þau viðbrögð sem málið hefur fengið í dag gefa fullt tilefni til að ætla að við verðum um það sammála að afgreiða málið og ljúka því farsællega.

Eins og ég nefndi áðan er ástæða til að taka þetta tiltekna mál fyrir þó að menn séu að skoða almennt ákvæðin um reynslulausn og ég ætla að þau viðbrögð sem við höfum hlýtt á hér í dag og sá almenni stuðningur við málið sem hefur komið fram geri það að verkum að við getum lokið því með sómasamlegum hætti fyrir vorið og þar með afnumið þetta hróplega misrétti, þetta hróplega óréttlæti á grundvelli fjárhags manna sem núgildandi lög fela í sér.