Meðlagsgreiðslur

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:55:15 (4601)

2004-02-24 18:55:15# 130. lþ. 70.7 fundur 311. mál: #A meðlagsgreiðslur# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:55]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir góðar undirtektir við þetta frv. og ef það fer til efh.- og viðskn., sem ég á frekar von á, þá á hv. þm. sæti þar líka þannig að ég vænti góðs af liðsinni hans í nefndinni og veit að þegar við leggjum saman þar er aldrei að vita hverju við fáum áorkað í þeirri nefnd.

Varðandi spurningu hv. þm. þá var þetta fyrst tekið upp á 125. löggjafarþingi, en við erum á 130. löggjafarþingi núna. Eins og ég greindi frá í máli mínu var að hluta til tekið upp efni þessa frv. í stjfrv. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt um skattfrelsi á tvöföldu meðlagi. En eftir stendur að það er ekki skattfrelsi ef um meira en tvöfalt meðlag er að ræða, sem er í sumum tilvikum ef tekjur meðlagsskylds aðila fara yfir ákveðin mörk, og eins ef um er að ræða alls konar aukaframlög vegna fermingar og ýmissa annarra þátta sem lög kveða á um að meðlagsskyldur aðili eigi að taka þátt í.

Varðandi umsagnirnar man ég ekki betur en að þær hafi allar verið jákvæðar nema Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur lagst gegn því af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að innheimta þetta meðlag. Sjálfsagt er það af því að Innheimtustofnun telur að endurkrafan sé erfið í þessu sambandi, en menn geta þá séð að ef Innheimtustofnun á í erfiðleikum með að innheimta slíkt meðlag hvort einstætt foreldri á þá ekki í sömu erfiðleikum með að innheimta það og er ekki of í látið að fela það Innheimtustofnun, sem á að hafa alla burði til þess að innheimta meðlögin, að hafa það á sinni könnu.