Varnir gegn dýrasjúkdómum

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 13:37:02 (4608)

2004-02-25 13:37:02# 130. lþ. 71.91 fundur 354#B varnir gegn dýrasjúkdómum# (aths. um störf þingsins), DrH
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 130. lþ.

[13:37]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. Guðna Ágústssyni fyrir að bregðast við eins og hann hefur gert og legg mikla áherslu á hvað það skiptir miklu máli hvernig hefur verið staðið að þessum málum á Íslandi áratugum saman því að hingað hefur ekki verið hleypt inn óheftum innflutningi á dýrum og við höfum verndað landið gegn þeim pestum sem ganga erlendis og eru mjög skæðar, t.d. fuglaflensunni og kúariðunni sem báðar hafa geisað í Evrópu og núna síðast í Kanada og Bandaríkjunum. Það undirstrikar mikilvægi þess að halda slíkum vörnum áfram hér á landi og mikilvægi þess að tryggja mataröryggi okkar Íslendinga og hlúa vel að landbúnaðinum því að hann er svo sannarlega mikilvægur í fæðuöryggi þjóðarinnar.

Það eru ekki bara bændur sem stunda landbúnað ef við lítum á hliðargreinar hans, á þá sem vinna úr landbúnaðarafurðum, bæði mjólkuriðnaði og kjötiðnaði. Þetta skapar mörg störf og veitir ekki af að hlúa vel að íslenskum landbúnaði.