Varnir gegn dýrasjúkdómum

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 13:38:43 (4609)

2004-02-25 13:38:43# 130. lþ. 71.91 fundur 354#B varnir gegn dýrasjúkdómum# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 130. lþ.

[13:38]

Össur Skarphéðinsson:

Hæstv. forseti. Það eru váleg tíðindi sem við heyrum erlendis frá um ýmiss konar faraldra, fyrst og fremst fuglaflensuna sem geisar sums staðar. Ég tek undir með hæstv. landbrh. að við verðum að gera það sem hægt er til að koma í veg fyrir að hún flytjist hingað til lands. Það er ágætt hjá hæstv. ráðherra að benda mönnum á að haga ferðum sínum með þeim hætti að litlar líkur séu á því að hún berist hingað til lands og ég mun gera það sjálfur persónulega.

Ég tek undir með þeim sem mæla fyrir því að við grípum til þeirra ráða sem þarf til að draga úr líkum á því að ófögnuður eins og þessi berist hingað til lands. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hafi birt auglýsingar sínar að ráði og tilmælum yfirdýralæknis og heilbrigðisyfirvalda. Ég hins vegar tek mönnum vara fyrir því að beita þessu óhóflega og ég veit að hæstv. landbrh. mun ekki gera það. Það sem vakir fyrir honum er fyrst og fremst að vernda heilsu landsmanna og sömuleiðis að vernda íslenskan landbúnað. Það skiptir miklu máli að sú heilbrigða framleiðsla sem við búum að og stöndum fyrir í landinu verði áfram með þeim hætti í framtíðinni.

Ég vek síðan eftirtekt á því að við höfum því miður hér á landi ýmiss konar vágesti í íslenskri náttúru sem boða ákveðnar hættur gagnvart landbúnaðarframleiðslu. Við höfum séð það að hér hefur salmonella verið að breiðast út og kampýlóbakter og mér finnst af þessu tilefni vera ágætt að benda á það hversu farsællega hæstv. umhvrh. í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld tókst að stemma stigu við útbreiðslu kampýlóbakter.

Ég bendi á það að lokum, virðulegi forseti, að því miður tekst okkur ekki algerlega að útiloka alla smitmöguleika því enn fljúga farfuglar óhindraðir hingað til lands og koma frá fjarlægum álfum þar sem því miður þessi faraldur ríkir. En við skulum vona að hæstv. ráðherra takist með góðra manna hjálp að koma í veg fyrir að þetta berist hingað.