Heilbrigðisþjónusta

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 13:53:48 (4615)

2004-02-25 13:53:48# 130. lþ. 72.1 fundur 238. mál: #A heilbrigðisþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[13:53]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar 1999 um heilbrigðismál segir m.a. eftirfarandi um áherslur ríkisstjórnarinnar í málaflokknum, með leyfi forseta:

,,Skilja þarf á milli hlutverks ríkisins sem kaupanda þjónustu annars vegar og veitanda hennar hins vegar í því skyni að auka ráðdeild.``

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem mynduð var á síðasta vori eru áréttuð markmið hennar í heilbrigðismálum en þar segir m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Nauðsynlegt er að verja fjármunum sem best og nýta kosti breyttra rekstrarforma og þjónustusamninga um einstaka þætti þar sem það á við til að tryggja góða þjónustu, án þess að dregið verði úr rétti allra til að nota heilbrigðisþjónustu.``

Hugmyndir um aðskilnað kaupanda og veitanda í heilbrigðisþjónustunni hafa notið vaxandi vinsælda í nágrannalöndum okkar. Þær hafa ekki síst verið vinsælar hjá stjórnvöldum sem vilja ná betri tökum á útgjöldum ríkisins til heilbrigðismála jafnframt því að fá betri yfirsýn yfir þá þjónustu sem veitt er eða þau vilja veita. Margvísleg önnur markmið eru einnig höfð til hliðsjónar.

1. Að bæta þjónustuna með því að tengja forgangsröðun og áætlanir við nýtingu fjármuna. Þannig hefur t.d. reynslan sýnt að þessi leið er árangursrík til að hvetja til hagkvæmari lausna t.d. með því að færa þjónustu milli þjónustustiga, svo sem frá sjúkrahúslegu til þjónustu á göngudeild eða dagdeild.

2. Að auka valfrelsi sjúklinga um þjónustu.

3. Að bæta frammistöðu veitendaþjónustu með því að byggja inn í kerfið hvata til að standa sig vel og eftirlit sem metur afköst og gæði þjónustunnar.

4. Að minnka umfang stjórnunar með því að færa ákvörðunarvald nær vettvangi þjónustunnar þannig að veitandi geti einbeitt sér að því að veita hagkvæma gæðaþjónustu.

5. Bent hefur verið á að með aðskilnaði kaupanda og seljanda þjónustunnar gefist möguleikar á að koma samkeppni milli seljenda og nota þannig markaðsöflin til þess að auka skilvirkni.

Í samræmi við nýjar hugmyndir í opinberum rekstri sem hafa verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum og ríkisstjórnir hér á landi hafa m.a. beitt sér fyrir, hafa stjórnvöld einnig notað þessa leið til að losa um stíft stjórnkerfi ríkisstofnana, losa um báknið.

Grundvöllur kerfisbreytingar í þessa veru er að fram fari kostnaðargreining í öllum þáttum heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt vef heilbrrn. var skipuð nefnd í byrjun árs 2000, fyrir réttum fjórum árum, sem fékk það hlutverk að kanna og gera tillögur um leiðir varðandi aðskilnað kaupanda og veitanda heilbrigðisþjónustunnar. Formaður nefndarinnar var skipaður Davíð H. Gunnarsson ráðuneytisstjóri. Eðlilegt er að spyrja:

Hvað líður störfum þeirrar nefndar og hvað líður undirbúningi að þeirri skipulagsbreytingu sem aðskilnaður kaupanda og veitanda í heilbrigðisþjónustu er?