Heilbrigðisþjónusta

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:01:40 (4617)

2004-02-25 14:01:40# 130. lþ. 72.1 fundur 238. mál: #A heilbrigðisþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:01]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er verið að spyrja um hvað líði undirbúningi varðandi aðskilnað kaupanda og veitanda heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Það er alveg greinilegt að mikil vinna er í gangi í þessa veru og að mörgu leyti sýnist mér menn vera farnir fram úr sjálfum sér hvað varðar áhuga á því að koma á einkarekstri eða koma ríkisrekstri yfir í einkarekstur og þá vísa ég til Landspítala -- háskólasjúkrahúss sem vinnur að því núna að koma ýmsum rekstri yfir á aðra aðila áður en þær nefndir sem eru að vinna að framtíðarskipulagningu sjúkrahússins hafa skilað af sér.

Hér var nefnt Sóltún og heilsugæslan í Salahverfi. Ég legg til að við förum okkur hægt í þessu máli, að við búum að reynslu a.m.k. þessara tveggja dæma áður en haldið er áfram og förum okkur hægt í að taka slík skref til einkareksturs. Við höfum fjölbreytta flóru og við getum byggt á því sem við höfum.