Heilbrigðisþjónusta

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:07:45 (4621)

2004-02-25 14:07:45# 130. lþ. 72.1 fundur 238. mál: #A heilbrigðisþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:07]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram um málið. Ég vil fyrst taka fram að það er ekkert samhengi í því að kaupa og selja heilbrigðisþjónustu og að taka upp tvöfalt kerfi. Það er allt annað mál. Ég hef sagt það að ég er ekkert á þeirri ferð að taka upp tvöfalt kerfi en þetta er allt annað mál. Það er hægt að koma á kaupum og sölu í heilbrigðisþjónustu með einu kerfi. Annað er svo hvað við förum hratt í það. Sumum finnst að fara þurfi hraðar, aðrir eins og ég hef gert hafa fetað þessa leið í ljósi reynslunnar. Það er ljóst að Landspítalinn lýkur störfum sínum við DRG-vinnuna eða stefnir að því að ljúka þeim á næsta ári, árið 2005. Það eru viss þáttaskil og þá er alveg kominn tími til þess m.a. að meta það hvort kerfi fastra fjárlaga fyrir spítalann er það besta. Mér finnst að við eigum að undirbúa okkur undir það.

Ég hef verið að feta þessa slóð m.a. í heilsugæslunni og fyrirrennari minn í öldrunarþjónustunni. Ég tel að þarna eigum við að ganga að með opnum huga, það er engin ástæða til annars, og byggja á þeirri reynslu sem við höfum. Ég sé því ekki neinn sérstakan ágreining á milli stjórnarflokkanna í þessu efni. Ég held að það sé alveg bærilegur friður um þetta og bærileg þjóðarsátt um þetta.