Heilsugæsla í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:17:10 (4624)

2004-02-25 14:17:10# 130. lþ. 72.2 fundur 239. mál: #A heilsugæsla í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Margrét Frímannsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að taka þetta upp og vil minna á, eins og reyndar hæstv. ráðherra gerði, svör hans við fyrirspurn sem Brynja Magnúsdóttir, varaþingmaður Samf. í Suðurk., var með þar sem hún kom inn á sama efni. Ég fagna því að sett hefur verið skýr stefna í heilsuvernd barna og ungmenna en um leið hlýt ég að vekja athygli á því að þessari heilsuvernd er ábótavant, ekki bara í framhaldsskólum heldur í grunnskólunum líka og ekki síst hjá börnum sem búa við alvarlegar geðraskanir. Það er langt í frá, eins og kemur fram í skýrslu sem Rúnar Vilhjálmsson prófessor sendi frá sér, að við stöndum jafnfætis Norðurlandaþjóðunum til að mynda.