Heilsugæsla í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:22:25 (4628)

2004-02-25 14:22:25# 130. lþ. 72.2 fundur 239. mál: #A heilsugæsla í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir góð svör við fyrirspurn minni og jafnframt þakka ég þingmönnum fyrir þátttökuna í umræðunni. Það er alveg ljóst að með þeim breytingum sem fram undan eru í Miðstöð heilsuverndar barna er verið að útvíkka starfssviðið og taka til eldri aldurshópanna sem er mjög jákvætt.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að prófa sig áfram með ýmsar leiðir, annars vegar með unglingamóttöku og hins vegar með heilsugæslu í framhaldsskólunum. Í umræðunni varðandi brottfall nemenda úr framhaldsskólum væri mjög áhugavert að skoða hvort tilvist skólaheilsugæslu í framhaldsskólum hafi eitthvað að segja varðandi brottfall, hvort brottfallið er minna úr þeim skólum þar sem skólaheilsugæslan er innan veggja skólanna en annars staðar.

Í umsögn Brynju Benediktsdóttur fyrir hönd Félags íslenskra heimilislækna um þáltill. mína á sínum tíma segir, með leyfi forseta.

,,Opin móttaka sem þessi er vettvangur forvarna á einstaklingsgrundvelli og ekki síður tækifæri til íhlutunar. Reynslan hefur sýnt að þeir einstaklingar innan skólans sem eiga í vanda, hvort sem hann er líkamlegur, andlegur eða félagslegur eru tíðustu gestirnir.``

Krakkar sem leita til unglingamóttöku á heilsugæslustöðvum eru þegar komnir í vanda. Hjá krökkum sem njóta skólaheilsugæslu í skólunum beinist áherslan að forvörnum, að greina þau ungmenni sem hugsanlega gætu lent í vanda og vera aðgengileg þegar þau hafa einhverjar ákveðnar spurningar sem þau þurfa að fá ráðgjöf við. Ég hvet því hæstv. heilbrrh. að láta athuga hvort tilvist heilsugæslu í framhaldsskólum geti haft áhrif á minnkun brottfalls nemenda úr skólum.