Kostnaðarhlutdeild sjúklinga

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:27:01 (4630)

2004-02-25 14:27:01# 130. lþ. 72.3 fundur 516. mál: #A kostnaðarhlutdeild sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:27]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Nýlega kom fram hjá Rúnari Vilhjálmssyni, prófessor í heilsufélagsfræði við Háskóla Íslands, að kostnaðarhlutdeild sjúklinga hafi hækkað um 70% frá því að hún var minnst rétt fyrir 1980. Jafnframt hefur komið fram í fræðigrein í læknablaði eftir Rúnar Vilhjálmsson og Guðrúnu V. Sigurðardóttur að gild rök megi færa fyrir því að útgjöld sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu séu þegar komin á varasamt stig og farin að bitna á aðgengi í heilbrigðisþjónustunni.

Í viðamikilli könnun sem gerð hefur verið á heilbrigðisþjónustunni kemur m.a. fram að fjórði hver einstaklingur frestaði eða hætti við að fara til læknis vegna kostnaðar og var það aðallega ungt fólk á aldrinum 18--24 ára, foreldrar barna eða fráskildir eru 28--33% af þeim 2.000 sem tóku þátt í könnuninni. Þetta sýnir ljóslega að rofin hefur verið þjóðarsátt um að allir eigi að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustunni óháð efnahag og staðfestir það sem haldið hefur verið fram að í vaxandi mæli geti efnalítið fólk ekki leyst út lyfin sín eða leitað læknisþjónustu. Þetta er slíkur blettur á velferðarsamfélagi okkar, herra forseti, að ekki verður við unað þegar farið er að úthýsa fólki úr heilbrigðiskerfinu sökum fátæktar. Það er rétt sem ASÍ hefur haldið fram að gjaldtakan í helbrigðiskerfinu er farin að leiða til stéttaskiptingar í heilbrigðisþjónustunni sem er að verða æ sýnilegri.

Um áramótin hækkaði ríkisstjórnin komugjöld til sérfræðinga um 30% sem örugglega hefur étið upp þá litlu hækkun sem atvinnulausir, aldraðir og öryrkjar fengu um sl. áramót. Ég tek fullkomlega undir það sem fram hefur komið hjá ASÍ að þessi gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu er vísir að stéttaskiptingu í heilbrigðisþjónustunni sem er að verða æ sýnilegri.

Heilbrigðisútgjöld heimilanna hafa vaxið mikið og ef litið er til heilbrigðisútgjalda hins opinbera hækkuðu þau um 103% eða úr tæpum 32 milljörðum í tæpa 65 milljarða frá árinu 1985--2002 á sambærilegu verðlagi og á sama tíma hefur hlutur heimilanna aukist um 159% á móti vexti upp á 103% í heilbrigðisútgjöldum hins opinbera á þessu tímabili.

Hæstv. heilbrrh. hlýtur að þurfa að taka það alvarlega þegar virtir fræðimenn færa fyrir því gild rök að útgjöld sjúklinga séu farin að bitna á aðgengi í heilbrigðisþjónustunni. Því hef ég leyft mér að leggja fyrir hæstv. heilbrrh. eftirfarandi spurningar:

1. Telur ráðherra að kostnaðarhlutdeild sjúklinga í sjúkratryggingum hafi aukist um 70% á sl. 15 árum, samanber niðurstöðu Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors í heilsufélagsfræði við Háskóla Íslands?

2. Telur ráðherra rétt að gild rök megi færa fyrir því að útgjöld sjúklinga hér á landi séu þegar komin á varasamt stig og farin að bitna á aðgengi að heilbrigðisþjónustunni, samanber niðurstöðu greinar Rúnars Vilhjálmssonar og Guðrúnar V. Sigurðardóttur um bein útgjöld íslenskra heimila vegna heilbrigðisþjónustu í 1. tbl. Læknablaðsins 2003?