Kostnaðarhlutdeild sjúklinga

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:35:49 (4632)

2004-02-25 14:35:49# 130. lþ. 72.3 fundur 516. mál: #A kostnaðarhlutdeild sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Ísland er níunda ríkasta þjóð í heimi en ríkissjóður hefur um 100 milljörðum kr. meira á milli handanna á hverju ári en hann hafði árið 1997.

Þrátt fyrir að ríkiskassinn hafi aldrei verið jafnfeitur vegna skattlagningar eru síaukin gjöld á sjúklinga staðreynd. Í nýjustu skýrslu OECD kemur fram að einstaklingar greiða um 17% heildarútgjalda í heilbrigðismálum í stað um 13% árið 1991. Þetta er umtalsverð hækkun á kostnaðarhlutfalli einstaklinga sem er hærra hér á landi en í bæði Noregi og Svíþjóð. Einstaklingar greiða meira en áður og meira en flestir Norðurlandabúar. Íslenskur almenningur ver svipuðu hlutfalli í heilbrigðismál og hann ver til kjöt- og fiskkaupa.

Það væri ágætt að fá svör frá hæstv. heilbrrh. um hvort það hafi verið meðvituð pólitísk ákvörðun af hans hálfu og ríkisstjórnar hans að auka kostnaðarhlutdeild sjúklinga. Einnig má spyrja hvort hæstv. heilbrrh. muni standa fyrir frekari hækkun á kostnaðarhlutdeild sjúklinga.