Kostnaðarhlutdeild sjúklinga

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:37:01 (4633)

2004-02-25 14:37:01# 130. lþ. 72.3 fundur 516. mál: #A kostnaðarhlutdeild sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Ásta Möller:

Herra forseti. Þannig vill til að í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir mig þar sem ég fjalla einmitt um notendagjöld. Þar kemur m.a. fram að notendagjöld á Íslandi, sem hlutfall af heilbrigðisútgjöldum, eru minni en á öðrum Norðurlöndum. Hins vegar vitum við að útgjöld til heilbrigðismála hafa aukist verulega á síðustu árum. En einhvern veginn hefur okkur tekist í gegnum tíðina, ef við horfum á tölur frá OECD síðustu 20 ár, að halda kostnaðarhlutdeild heimila í kringum 15%. Hún hefur rokkað til um prósent til og frá en hún hefur verið í kringum 15%, sem er lægra en í löndunum í kringum okkur.

Hins vegar er ég fylgjandi því að skoðað verði sérstaklega hvernig notendagjöld leggjast á sjúklinga. Ég tel t.d. að það þurfi að skoða sérstaklega að ef einstaklingur sem fer í tiltekna meðferð leggst inn á sjúkrahús þá þarf hann ekki að borga. Sé hins vegar aðgerðin gerð á vegum göngudeildar eða úti í bæ þá þarf hann að greiða töluvert fé fyrir sömu aðgerð.