Kostnaðarhlutdeild sjúklinga

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:39:40 (4635)

2004-02-25 14:39:40# 130. lþ. 72.3 fundur 516. mál: #A kostnaðarhlutdeild sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Margrét Frímannsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að taka þetta upp. Ég er ekki síður þakklát þeim sem samdi skýrsluna, prófessor Rúnari Vilhjálmssyni, því að hann hefur komið mjög þarfri umræðu af stað í þjóðfélaginu. Það er ljóst að kostnaðarhlutdeild sjúklinga er komin á varasamt stig. Ég hef sjálf séð það á síðasta ári og kynnst fólki sem hefur veigrað sér við að taka út lyf vegna þess hve dýr þau eru og vegna þess að 18 þús. kr. þakið á sérfræðilæknaþjónustu, sem er okkur kannski ekki svo erfitt, er þeim óviðráðanlegt. Við verðum að hugsa um þetta og taka tillit til þess.

Hæstv. ráðherra sagði að þetta væri svolítið eins og að bera saman epli og appelsínur. Það er það líka þegar hæstv. ráðherra vitnar í Heilsugæsluna. Þar búum við nú þegar við tvöfalt kerfi. Þar er stór hópur sem hefur ekki aðgang að heilsugæslu og er vísað á heilsugæsluna eftir kl. fimm á daginn þar sem kostnaðurinn er mun meiri.