Kostnaðarhlutdeild sjúklinga

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:44:56 (4639)

2004-02-25 14:44:56# 130. lþ. 72.3 fundur 516. mál: #A kostnaðarhlutdeild sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Mér fyndist að hæstv. heilbrrh. væri maður að meiri ef hann viðurkenndi að allt of langt hafi verið gengið í að auka kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskerfinu í stað þess að berja höfðinu við steininn eins og hann gerir. Ég veit að í hjarta sínu er hæstv. ráðherra sammála því að það hefur verið gengið of langt. Við erum að hverfa frá því sem sátt hefur verið um, að aðgangur fólks að heilbrigðiskerfinu eigi að vera jafn og óháður efnahag. Ég gef meira fyrir tölur og útreikninga frá fræðimönnum og prófessorum í háskólanum og útreikninga sem ég hef í höndunum frá Hagstofunni en útreikninga sem ráðherrann dregur upp úr hatti sínum frá ráðuneytinu.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki orðið var við það í starfi sínu að sjúklingar, margir sjúklingar, hafi ekki efni á að leysa út lyfin sín eða leita sér læknishjálpar vegna þess að það sé orðið það dýrt að leita eftir þeirri þjónustu? Ég spyr ráðherrann hvort hann telji ekki bráðum komið að endamörkum þess að hækka sífellt hlut sjúklinga í kostnaði, eins og var gert um síðustu áramót þegar komugjöld til sérfræðinga voru hækkuð um 30%.

ASÍ hefur haldið því fram, sem er alveg rétt, að við séum að sigla inn í verulega stéttaskiptingu, ekki síst í heilbrigðiskerfinu, þegar fólk getur ekki leitað sér læknishjálpar. Það er alveg sama hvað hæstv. ráðherra segir, hvort sem litið er á ...

(Forseti (GÁS): Ég bið hv. þm. að hafa sig hæga og leyfa ræðumanni að tala.)

... heildarútgjöld í heilbrigðismálum og hlutfallið sem sjúklingar borga þá er það 16% á þessu umrædda tímabili sem ég nefndi, en það var 13% fyrir 15 árum. Þegar horft er til vergrar landsframleiðslu voru heilbrigðisútgjöld heimilanna 0,94% árið 1985 en eru kominn í 1,58% af vergri landsframleiðslu á árinu 2002. Þetta segir allt sem segja þarf.

Ég spyr hæstv. ráðherra og bið um að hann láti hjartað ráða för þegar hann talar úr ræðustól: Finnst honum ekki of langt gengið í kostnaðarþátttöku fólks í heilbrigðisþjónustunni?