Búsetuúrræði fyrir geðfatlaða

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:50:09 (4641)

2004-02-25 14:50:09# 130. lþ. 72.4 fundur 242. mál: #A búsetuúrræði fyrir geðfatlaða# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Mun hæstv. félmrh. beita sér fyrir nýjum úrræðum fyrir geðfatlaða sem nú liggja á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi og öðrum sjúkrastofnunum, en gætu búið á sambýlum og öðrum sérhæfðum heimilum utan sjúkrastofanna?

Tilefni þessarar fyrirspurnar er viðtal við Hannes Pétursson, sviðsstjóra geðsviðs LSH, sem birtist í Morgunblaðinu í október sl. Þar benti hann á vanda 90 geðfatlaðra einstaklinga sem eru inniliggjandi á geðsviði LSH og eru á biðlista eftir heimili. Hluti þessa hóps, eða um 60 einstaklingar, getur að mati sviðsstjórans nýtt sér búsetuúrræði í félagslega kerfinu utan sjúkrahússins væru þau úrræði til staðar, þótt þarfir þeirra fyrir þjónustu utan sjúkrastofnunar séu mismiklar. 10--15 af þeim gætu búið á vernduðum heimilum án mikillar aðstoðar og um 20 manns til viðbótar gætu spjarað sig á sambýlum með sólarhrings vaktþjónustu. Þetta eru einstaklingar á aldrinum 25--50 ára sem hafa margir hverjir beðið lengi eftir að komast á sambýli.

Að lokum nefndi sviðsstjórinn hóp 25 einstaklinga sem gætu verið utan sjúkrahúsa en með umtalsverðri þjónustu, sem er meiri en stendur til boða á sambýlum fyrir geðfatlaða á vegum félagslega kerfisins í dag.

Sams konar sjónarmið koma einnig fram í viðtali við Ingibjörgu Hrönn Ingimarsdóttur, geðhjúkrunarfræðing og þáverandi forstöðumann búsetuþjónustu fyrir geðfatlaða innan Félagsþjónustunnar í Reykjavík, en það viðtal birtist í Morgunblaðinu í október 2002. Þar er haft eftir henni að hópur vistmanna hafi frosið inni á langlegudeildum og geðdeildum LSH, en hafi í raun burði og getu til að búa annars staðar. Hún telur þörf á fleiri úrræðum sem væru varanleg vistunarúrræði fyrir þessa einstaklinga þegar þeir útskrifast af sjúkrastofnun.

Fyrir jól kom fram í svari við fyrirspurn minni til hæstv. félmrh. að 88 geðfatlaðir einstaklingar væru á biðlista eftir félagslegum búsetuúrræðum. Þar kom einnig fram að 26 þeirra hafi þá verið á sjúkrastofnun. Þessi tala er nokkuð lægri en fram kom í viðtali því sem ég vísaði í hér á undan. Þar munar 34 einstaklingum. Því er líklegt að vandinn sé meiri en fram kemur í opinberum tölum.

Það er samdóma álit sérfræðinga að félagslegur stuðningur við geðfatlaða til sjálfstæðrar búsetu auki sjálfstæði þeirra og vellíðan og dragi úr tíðni innlagna á geðdeildir. Þannig er það bæði hagkvæmara þjónustuform og heppilegra frá meðferðarlegu sjónarmiði en sjúkrahúsvist, að því gefnu að sjúkdómurinn sé í því jafnvægi að viðkomandi geti verið utan sjúkrahúsa. Kostnaður við þjónustu við geðfatlaða á sjúkrastofnun er mun meiri en ef viðkomandi fær stuðning til búsetu utan sjúkrastofnunar.

Samkvæmt upplýsingum frá LSH kostar dagur á endurhæfingarsviði geðdeildar um 25 þús. kr. á dag, eða 550 millj. kr. á ári vegna þessara 60 einstaklinga. Þjónusta við þennan sama hóp með félagslegum úrræðum mundi á hinn bóginn kosta í kringum 130 millj. kr. á ári. Mismunurinn er um 400 millj. kr. á ársgrundvelli. Hér er eingöngu um að ræða kostnað við þjónustu við þessa einstaklinga. Það er ekki svo að um beinan sparnað sé að ræða.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir stjórnvöld að veita svo stórum hópi geðfatlaðra þjónustu á allt of háu stigi og með mun meiri tilkostnaði en þörf er á. Þess vegna varpa ég fram þessari fyrirspurn til hæstv. félmrh.