Búsetuúrræði fyrir geðfatlaða

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:58:31 (4643)

2004-02-25 14:58:31# 130. lþ. 72.4 fundur 242. mál: #A búsetuúrræði fyrir geðfatlaða# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:58]

Össur Skarphéðinsson:

Hæstv. forseti. Mér þótti það magnaðar upplýsingar sem dregnar voru saman hjá hv. fyrirspyrjanda. Samkvæmt þeim tölum sem hún bar fram mætti spara 400 millj. kr. með því að finna tilteknum hópi geðfatlaðra önnur úrræði en þau að dvelja í langtímavistun á spítala. Það er einnig ljóst að það mundi líka bæta líf þeirra og auka gildi þess. Það væri mannúð fólgin í því. En hvers vegna gerist það ekki? Það er vegna þess að skipulag kerfisins er með þeim hætti að málefni geðfatlaðra eru hjá fleiri en einu ráðuneyti. Ég held að hæstv. ráðherra hafi misst af meginkjarnanum í þessu máli. Sá kjarni er eftirfarandi:

Það er öllum í hag, skattborgurum, ríkinu, en fyrst og fremst geðfötluðum, ef ráðist yrði í stjórnkerfisbreytingar sem mundu leiða til þess að málefni geðfatlaðra væru öll á einni hendi.