Búsetuúrræði fyrir geðfatlaða

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 15:00:57 (4645)

2004-02-25 15:00:57# 130. lþ. 72.4 fundur 242. mál: #A búsetuúrræði fyrir geðfatlaða# fsp. (til munnl.) frá félmrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Björgvin G. Sigurðsson:

Herra forseti. Hérna er hreyft við máli sem varðar marga og skiptir miklu máli en staða margra geðfatlaðra einstaklinga í samfélagi okkar hefur lengi verið sem sár á samvisku Íslands og íslensku þjóðarinnar. Svo dapurlega hefur verið að málum staðið á köflum að menn hafa varla trúað þeim fréttum sem hafa borist þegar geðdeildum t.d. hefur verið lokað. Allir þekkja sögur af því hvernig heilu fjölskyldurnar eða fjölbýlishúsin eru nánast í herkví þegar ástandið er hvað verst á geðfötluðum einstaklingum sem hafa ekki í nein hús að vernda. Það er ákaflega mikilvægt að hæstv. félmrh. átti sig á þeim vanda sem fyrir liggur og grípi strax til bráðra aðgerða og forgangsraði með mjög skýrum og afdráttarlausum hætti í þágu þessa fólks í staðinn fyrir að standa svo skammarlega að málum sem ríkisstjórnin hefur gert á undanförnum árum og er algerlega óviðunandi. Eins og ég sagði áðan, herra forseti, er það sár á samvisku þjóðarinnar hvernig hefur verið búið að geðfötluðum einstaklingum í landinu.