Selir

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 15:16:15 (4652)

2004-02-25 15:16:15# 130. lþ. 72.6 fundur 469. mál: #A selir# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Virðulegi forseti. Mér fannst ekki mikil umhyggja fyrir umhverfinu birtast í máli hæstv. ráðherra. Hún er þeirrar skoðunar, eins og ég, að það sé í rauninni engin stofnun og ekkert vald, opinbert, sem á að hafa stjórnsýslu yfir veiðum á sel.

Hins vegar blasir það alveg við að hæstv. ráðherra er sér vel meðvituð um það að Íslendingar hafa axlað ákveðnar skuldbindingar með aðild að alþjóðlegum samningum. Þar segir m.a. að það eigi að stuðla að verndun vistkerfa og það sem er brýnna, þar segir að það eigi að stýra eða stjórna nýtingu til að tryggja vernd og sjálfbæra nýtingu. Hæstv. ráðherra hefur með öðrum orðum skyldum að gegna til að sjá til þess að þetta verði gert. En það er ekki að gerast í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá hæstv. sjútvrh., sem nú gengur í salinn, er útsel að fækka mjög hratt. Hverjir standa fyrir því? Það eru einkaaðilar, það er hringormanefnd sem er ekki kostuð af ríkinu heldur af útflutningssamtökum og aðilum sem standa í sjávarútvegi. Er það virkilega svo að slíkum aðilum séu heimilar stjórnlausar veiðar? Það er engin stofnun sem á að hafa eftirlit með veiðunum. Það er engin stofnun sem á að hafa eftirlit með því að ekki sé gengið of hratt og harkalega að stofninum.

Ég er ekki að óska eftir því að útselurinn sé friðaður en ég er að óska eftir því að hæstv. umhvrh. standi undir þeim skyldum sem á hennar herðar eru lagðar. Hún á að tryggja samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum vernd og sjálfbæra nýtingu stofna. Það liggur í augum uppi að það er ekki að gerast varðandi útselinn.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hún a.m.k. ekki tímabært að láta gera úttekt á störfum hringormanefndar og að láta fella selina undir villidýralögin?