Táknmálskennsla í Háskóla Íslands

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 15:14:22 (4672)

2004-03-01 15:14:22# 130. lþ. 73.1 fundur 363#B táknmálskennsla í Háskóla Íslands# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Það er rétt sem fram hefur komið að það var heimspekideild Háskóla Íslands sem tók þá sjálfstæðu ákvörðun að fella niður kennslu í táknmálstúlkun frá og með næsta hausti. Ég vil geta þess bara til þess að fá samhengi í málið og heildarmyndina að það var í lok ársins 2000 sem Háskóli Íslands óskaði eftir viðræðum við menntmrn. um nám í táknmálsfræði og táknmálstúlkun og fjármögnun þess náms.

Menntmrn. samþykkti þær kröfur sem Háskóli Íslands setti upp varðandi fjármögnun námsins, samþykkti námið og setti það í hinn svokallaða reikniflokk I sem Háskóli Íslands hafði farið fram á. Síðan fer Háskóli Íslands fram á það að þetta nám verði flokkað undir reikniflokk IV og menntmrn. samþykkir það, og þetta er aðkoma ráðuneytisins að því námi sem við erum að ræða um. Þegar ég hef litið yfir þessa sögu sést greinilega að menntmrn hefur samþykkt í einu og öllu þær kröfur sem Háskóli Íslands hefur sett fram varðandi táknmálstúlkun og táknmálsfræðin.

Ég vil geta þess að í dag eru 20 nemendur í táknmálsfræði við Háskóla Íslands. Það eru 17 eldri nemendur og þrír nýnemar og það er enginn í námi í táknmálstúlkun.

Ég vil líka geta þess að í þeim samningi sem við undirrituðum á síðasta ári við Háskóla Íslands er sérstaklega getið um það að Háskóla Íslands beri að tilkynna ráðuneytinu það sérstaklega ef verulegar breytingar verði á námsframboði innan háskólans. Það má deila um hvort þetta séu verulegar breytingar á námsframboði en alla vega hefur Háskóli Íslands ekki haft samband við ráðuneytið. Engu að síður tel ég að mér beri skylda til þess sem menntmrh. að fara gaumgæfilega yfir þetta mál og m.a. skoða það hvort og hvernig hægt er að koma þessu mikilvæga námi áleiðis hvort sem það verður innan Háskóla Íslands eða á öðrum forsendum.