Framleiðsla á íslensku sjónvarpsefni

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 15:26:16 (4682)

2004-03-01 15:26:16# 130. lþ. 73.1 fundur 365#B framleiðsla á íslensku sjónvarpsefni# (óundirbúin fsp.), ÁF
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Ásgeir Friðgeirsson:

Frú forseti. Sú atvinnugrein sem vex hvað hraðast á Vesturlöndum og skapar hvað flest ný, eftirsóknarverð og vellaunuð störf, er tækni-, menningar- og afþreyingariðnaðurinn. Í áratugi hafa kvikmyndir, sjónvarpsefni, hugbúnaður og tónlist verið helsta stoðin í útflutningi landa á borð við Bandaríkin og Bretland. Á síðari árum hafa smærri þjóðir sótt markvisst inn á afþreyingarmarkaðinn með góðum árangri. Má þar nefna frændur okkar á Írlandi, Nýsjálendinga og bræður okkar og systur í Danmörku.

Alþjóðavæðing ljósvakamiðlanna hefur skapað stóran markað fyrir sjónvarpsefni hvaðanæva að. Á þessum markaði hafa Íslendingar fyrst og fremst verið þiggjendur. Innlend dagskrárgerð fyrir sjónvarp stendur veikum fótum. Sjóður sem styrkja á gerð á leiknu íslensku sjónvarpsefni fékk á síðasta ári 15 millj. kr. til ráðstöfunar og Ríkissjónvarpið keypti frá sjálfstæðum framleiðendum íslenskt efni fyrir samtals 58 millj. kr. á árinu 2003. Þetta eru litlir fjármunir sem litlu skipta.

Rétt er þó að geta þess að stærsti hluti innlendrar dagskrárgerðar er unninn innan veggja RÚV og má ekki með neinum hætti gera lítið úr því ágæta starfi. Hins vegar er öllum ljóst, sem eitthvað þekkja til atvinnusögu síðustu áratuga, að öflug atvinnugrein verður ekki búin til með því að halda úti einu ríkisfyrirtæki.

Á Íslandi í dag skiptir það fólk hundruðum sem hefur menntun, hæfileika, reynslu og kunnáttu á sviði sjónvarpsmyndagerðar og hungrar eftir verkefnum. Þessi auðlind okkar er vannýtt. Staða fyrirtækja í framleiðslu sjónvarpsefnis hefur verið slæm lengi en nú virðist steininn hafa tekið úr. Samkvæmt fréttum fjölmiðla nýverið er svo komið að það litla fé sem ríkissjónvarpið hefur þó til kaupa á innlendu efni er uppurið fyrir þetta ár. Vart voru liðnar sjö vikur af árinu þegar markaði fyrir innlent sjónvarpsefni var lokað.

Í ljósi þessa vil ég spyrja hæstv. iðn.- og viðskrh. hvort hún telji þörf á sérstökum aðgerðum til stuðnings við fyrirtæki í framleiðslu á sjónvarpsefni þegar ljóst er að helsti kaupandi efnis, ríkissjónvarpið, hefur lýst því yfir að fyrirtækið muni ekki kaupa íslenskt efni það sem eftir er af árinu.