Brottkast á síld

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 15:36:09 (4689)

2004-03-01 15:36:09# 130. lþ. 73.1 fundur 366#B brottkast á síld# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Hér er um grafalvarlegt mál að ræða sem hv. þm. hefur hafið máls á. Eins og kom fram hjá honum fór norska strandgæslan um borð í Þorstein EA á fiskverndarsvæðinu við Svalbarða. Við höfum viðurkennt lögsögu Noregs yfir fiskverndarsvæðinu sé byggt á Svalbarðasáttmálanum og svo fremi sem jafnræðis sé gætt á milli allra aðila. Höfum við á þessum grunni viðurkennt að norsk stjórnvöld séu þau eftirlitsyfirvöld sem eigi að fylgjast með og fara með mál af þessu tagi í þeirri lögsögu.

Okkur hefur ekki borist nein tilkynning um málið af hálfu norskra yfirvalda og samkvæmt því sem fram hefur komið í fréttum var gefin út aðvörun til skipstjórans og honum gert að gera breytingar á sínum útbúnaði, sem hann gerði og norska strandgæslan sætti sig við. Ég held að við verðum á þeirri forsendu að líta svo á að þau yfirvöld sem með málið fara á þessum stað og við höfum viðurkennt sem slík, svo fremi sem byggt sé á grundvelli Svalbarðasáttmálans og jafnræðis sé gætt, hafi afgreitt málið.

Hvers vegna norsk stjórnvöld hafi ekki látið okkur vita af málinu held ég að hljóti að byggjast á því að þau telji að málinu sé lokið af sinni hálfu. Það hlýtur, herra forseti, að vera hæpið og vafamál ef mál eru afgreidd af tvennum yfirvöldum í tveimur löndum.