Starfsmenn í hlutastörfum

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 16:08:07 (4696)

2004-03-01 16:08:07# 130. lþ. 73.4 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv. 10/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt það sem verið er að gera. Það er verið að knýja fram niðurstöðu með lögum þvert á vilja verkalýðshreyfingarinnar.

Hæstv. ráðherra talar um tvær leiðir til að framfylgja umræddri tilskipun, annars vegar við samningaborð og hins vegar með lögum, að beita löggjafarvaldinu. Launafólk hjá ríki og sveitarfélögum mætir einum og sama manninum í báðum tilvikum, bæði á löggjafarsamkundunni og við samningaborðið, og sá heitir Geir H. Haarde og er hæstv. fjmrh. landsins. (Fjmrh.: Það er líkt á komið.) Það er hann sem semur um þessi mál.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, það er of mikið sagt af minni hálfu að ekki hafi verið leitað eftir undanþágu hjá öðrum. Það sem ég ætti fremur að segja er að undanþága hefur hvergi verið eins víðtæk og hér er. Meira að segja í Bretlandi eru þeir sem kallast ,,casual workers`` og ,,temporary agency workers`` ekki undanþegnir þessari tilskipun. Í Danmörku er undanþágan ekki eins víðtæk og ætlunin er að beita hér.

Mergurinn málsins er að verkalýðshreyfingin telur að tilskipunin heimili einungis að undanskilja þá hópa sem stofna til skammtímaráðningarsambands. Ég vitna hins vegar til þess að stórir hópar starfsmanna ríkis og sveitarfélaga hafa verið ráðnir á tímavinnukaup þótt þeir vinni nánast fulla vinnu, og reglulega, árum saman. Það er þetta sem menn eru að gagnrýna.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hverju mundi það breyta og hvað væri svona slæmt við það að undanskilja þá málsgrein sem nú hefur komið brtt. fram um að felld verði brott úr lögunum? Hverju mundi það breyta fyrir hagsmuni ríkis og sveitarfélaga? Hvers vegna er ekki hægt að verða við þessari tillögu?