Starfsmenn í hlutastörfum

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 16:10:31 (4697)

2004-03-01 16:10:31# 130. lþ. 73.4 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv. 10/2004, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[16:10]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki hægt að verða við henni vegna þess að það hefur ekki náðst um það samkomulag. Ef ég má persónugera þetta eins og hann gerði áðan eru það sem sagt samningamenn á mínum vegum og hann sjálfur og kollegar hans sem ekki hafa getað komið sér saman um þessi atriði. Það stendur samt opið, þrátt fyrir þennan texta hér, að ná slíku samkomulagi ef í það færi. Ég hafna því algjörlega að úr þessu sé gert það stórmál sem hv. þm. hefur hér gert. Ef það eru einhver dæmi um að starfsmenn séu óeðlilega lengi á skammtímaráðningarkjörum eða ráðnir upp á tímakaup væri þá ekki ágætt verkefni fyrir hann að reyna að tryggja því fólki föst hlutastörf eða jafnvel föst full störf og fá málinu breytt fyrir slíka einstaklinga út frá þeirri hlið mála? Ég spyr.