Starfsmenn í hlutastörfum

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 16:34:04 (4706)

2004-03-01 16:34:04# 130. lþ. 73.4 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv. 10/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[16:34]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa furðu minni á málflutningi hæstv. ráðherra, félmrh. og fjmrh. Hæstv. félmrh. talar um 40 samningafundi sem hafi ekki leitt til samkomulags, en gleymir að reifa það sem mestu máli skiptir, hvað hafi staðið þar í veginum.

Það sem stóð í vegi var þvergirðingsháttur af hálfu fjmrn., samningamanna hæstv. fjmrh. og sveitarfélaganna, sem neituðu því að tímavinnufólk hjá ríki og sveitarfélögum fengi notið þeirra réttinda sem tilskipun Evrópusambandsins og hins Evrópska efnahagssvæðis kveður á um og byggir á samkomulagi verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda í Evrópu sem við áttum aðild að. Þetta er mergurinn málsins.

Ég ætla að gera lokatilraun í þessu máli, vegna þess að mér finnst öll rök vera komin fram af okkar hálfu. Það er óþarfi að fara í einhverjar maraþonumræður um málið, það liggur alveg ljóst fyrir. Hér eru hins vegar algjörlega rökþrota menn sem sitja fyrir svörum og geta ekki réttlætt það lagafrv. sem liggur fyrir Alþingi.

Það sem um er deilt er, sem áður segir, 3. mgr. 2. gr. frv., og ég ætla að lesa upp úr athugasemdum með þeirri grein, vegna þess að ef lýsingin sem þar kemur fram væri rétt skildi ég þennan málflutning, þá væru ákveðin rök fyrir þeim málflutningi sem við höfum heyrt. En þetta er ekki lýsing á veruleikanum og á því byggist málstaður minn og okkar sem höfum verið að andæfa frv.

Um 3. mgr. 2. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að heimilt sé að undanskilja ákvæðum frumvarpsins þá starfsmenn ríkis og sveitarfélaga sem fá greitt tímavinnukaup eins og það er oftast nefnt í kjarasamningum þeirra. Slíkar undanþágur hafa tekið til skólafólks við störf í skólafríum, lífeyrisþega sem vinna hluta úr starfi, starfsmanna sem ráðnir eru til skamms tíma á sérstökum, árvissum álagstímum stofnana ríkis eða sveitarfélaga, þó eigi lengur en tvo mánuði, starfsmanna sem ráðnir hafa verið til að vinna að sérhæfðum afmörkuðum verkefnum og starfsmanna sem starfa óreglubundið um lengri eða skemmri tíma, þó aðeins í algjörum undantekningartilvikum. Með þessu fyrirkomulagi er stefnt að því að samningsaðilar á opinberum vinnumarkaði hafi í samræmi við þær hefðir sem þar hafa ríkt möguleika til þess að gera hlutastarf að ákjósanlegum kosti. Í samræmi við efni tilskipunarinnar er gert ráð fyrir því að samningsaðilar endurskoði slíkar undantekningar reglulega til að ganga úr skugga um að þær hlutlægu ástæður sem liggja þeim til grundvallar séu enn í gildi.``

Hér er vísað til undantekningartilvika. Það er talað um tvo mánuði, tveggja mánaða ráðningu.

Það sem við höfum verið að benda á er að hjá ríki og sveitarfélögum eru mörg hundruð manns á tímaráðningaforminu árum saman. Hvaða fólk er þetta? Ég vísa t.d. til félagsþjónustunnar hjá sveitarfélögum. Ég vísa til starfsfólks sem vinnur í sundlaugum víðs vegar um landið, í fastri vinnu en á tímavinnukaupi. Ég vísa til fjölda starfsmanna hjá ÁTVR sem hafa verið í langan tíma á slíku ráðningaformi, fólk sem vinnur fulla vinnu en í tímavinnu.

Það var samið um það fyrir allmörgum árum að þegar einstaklingur hefði verið í starfi í tiltekinn tíma, tvö ár, skyldi hann njóta allra réttinda fastráðins manns. Þetta er búið að festa reyndar í lög núna. Þetta hefur verið markmið aðila beggja vegna borðsins.

Þessi lög taka ekki til þessa. Þau undanskilja alla sem eru á tímavinnuráðningaforminu, allt fólk, og þetta eru mörg hundruð manns. Við erum að ganga eftir því hér við þessa umræðu að fá skýringu á því hvers vegna í ósköpunum verið er að gera þetta. Hvers vegna í ósköpunum er verið að undanskilja fólk sem hefur unnið hjá ÁTVR, hjá félagsþjónustunni, hjá sundlaugunum og hjá ýmsum öðrum opinberum aðilum árum saman á tímavinnukaupi og meina því aðgang að símenntun og endurmenntun? Meina því aðgang að sjálfsögðum upplýsingum á vinnustað sem frv. kveður á um? Hver er skýringin á því? Geta hæstv. ráðherrar nefnt dæmi um þá hópa sem þeir telja brýnt lögum samkvæmt að undanskilja þessum réttindum? Getum við fengið dæmi? Hver er skýringin á því að ríkisstjórnin er að meina þessu fólki um þessi réttindi?

Það er rangt sem haldið er fram af hálfu fjmrn. og félmrn. að við séum með sambærilegar undanþágur og tíðkast annars staðar. Þar eru vissulega undanþágur um fólk sem er tímabundið ráðið um skamman tíma. En það er hvergi gengið eins langt og hér. Ég vék að því áðan að jafnvel í Bretlandi, þar sem talað er um ,,temporary work`` og ,,casual workers`` og ,,temporary agency workers`` fellur það undir þessi lög þar. En á Íslandi leggja menn lykkju á leið sína með lögum að undanskilja mörg hundruð einstaklinga sem árum saman hafa verið á tímakaupi hjá ríki og sveitarfélögum, negla í lögin ákvæði sem hafa þessi réttindi af fólkinu.

Svo kemur hæstv. ráðherra og segir: Menn eiga að semja um þetta við samningaborðið. Hann hefur neitað því. Hann stendur í vegi fyrir því að samningar náist um það efni. Við spyrjum: Hvers vegna? Hvers vegna á að hafa þessi réttindi af fólkinu? Hver er skýringin?

Hæstv. félmrh. þarf líka að svara þessu. Það þýðir ekki að koma hér upp í ræðustól og segja: Nú ætla ég að svara sem félmrh. og segja síðan ekkert. Hann á að gæta félagslegra réttinda. Hvers vegna í ósköpunum gerir hann það ekki? Hvers vegna ætlar hann að hafa þessi réttindi af tímavinnufólki hjá ríki og sveitarfélögum? Hver er skýringin á því? Hvaða fólk hefur hann í huga? Hverjir eru það sem hann telur að verði að troða á á þennan hátt. Hvaða hópa hefur hann í huga? Hver er hættan á því að fella þessa umdeildu lagagrein, 3. mgr. 2. gr. laganna, brott úr frv.? Getum við fengið skýringar á því?

Er það einfaldlega vegna þess að sveitarfélögin og ríkið hafa reynst slíkir þverplankar í málinu, neitað að semja á grundvelli tilskipunar og samkomulags sem gert var á milli verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda í Evrópu og við fyrir okkar leyti höfum samþykkt, en þessir aðilar standa í vegi fyrir? Þá leyfir hæstv. félmrh. sér að koma hingað upp og segja: Það hafa verið haldnir 40 samningafundir og þess vegna er frv. fram komið --- sem kveður á um hvað? Að vilji eins aðilans við samningaborð er festur í lög. Vilji hæstv. fjmrh. og vilji sveitarfélaganna sem af óskiljanlegum ástæðum eru að knýja málið fram.

Hæstv. forseti. Ég auglýsi enn og aftur eftir upplýsingum um þá hópa sem ríkisstjórnin hefur tekið út til að hafa af réttindi hlutavinnufólks. Hverjir eru þeir? Hvaða fólk er þetta? Hvaða hagsmunir eru í húfi? Hvers vegna fer ríkisstjórnin fram með þessum hætti? Gætum við fengið skýringar á því eða ætla menn að koma aftur hingað upp og segja: Ég er ráðherra, þess vegna þegi ég.