Fjárhagserfiðleikar dómstólanna og efling sérsveitar lögreglunnar

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 13:36:11 (4726)

2004-03-02 13:36:11# 130. lþ. 74.91 fundur 371#B fjárhagserfiðleikar dómstólanna og efling sérsveitar lögreglunnar# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[13:36]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Það er athyglisvert hvernig hæstv. dómsmrh. skautar fram hjá því að ræða það mál sem hér er vakin athygli á. Það eru auðvitað fleiri vinklar sem vekja athygli vegna þess að nýlega hefur verið fjallað um það í austfirskum fjölmiðli að ófremdarástand sé í raun og veru á Kárahnjúkasvæðinu hvað varðar fíkniefnamál. Hæstv. dómsmrh. hefur hins vegar á heimasíðu sinni og í fjölmiðlum gefið þau svör að hann hafi kynnt sér málið og þetta sé önnur mynd en hæstv. ráðherra hafi fengið.

Það er því afar sérkennilegt að heyra áherslur hæstv. dómsmrh. á því hvernig skipta beri fjármagni innan verkahrings hans. Það hlýtur að vera eðlilegt að við spyrjum þeirrar spurningar, vegna þess að við sem stóðum að baki þeirri ákvörðun að reisa Kárahnjúkavirkjun og treystum því að stjórnvöld meintu það að þau ætluðu að standa vel að málum, hvort þá séu örugglega lögreglumál höfð í því samhengi líka þannig að tryggt sé að þau embætti sem eiga að sinna löggæslumálum á því svæði fái fjármagn til þess og þann vinnukraft sem til þarf. Það er því sérkennilegt að heyra frá hæstv. dómsmrh. að það sem sé efst í huga sé að vopnvæða lögreglu á ákveðnum svæðum á landinu en ekki að sinna þeim verkefnum sem flestir telja að séu brýn nú til dags.

Spurningin hlýtur að vera sú, frú forseti: Er þetta það sem koma skal í dómsmrn., að verið sé að bregðast við væntanlegri brottför hersins með því að efla sérsveit lögreglunnar og láta aðra þætti sem undir dómsmrn. heyra líða fyrir slíkt?