Starfsmenn í hlutastörfum

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 13:44:46 (4732)

2004-03-02 13:44:46# 130. lþ. 74.2 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv. 10/2004, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[13:44]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þeir sem greiða atkvæði með þessari tillögu vilja tryggja að allt hlutavinnustarfsfólk á Íslandi hvar sem það starfar, á almennum vinnumarkaði, hjá hinu opinbera, hjá ríki eða sveitarfélögum, fái notið þeirra réttarbóta sem felast í frv. Þeir sem greiða atkvæði gegn brtt., og nú horfi ég til ráðherrabekkjarins og stjórnarmeirihlutans á Alþingi, eru að hafa þessi réttindi af mörg hundruð manns, starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga sem eru í tímavinnu, hlutavinnufólki. Þegar menn hafa réttindi af fólki hljóta þeir að hafa rök fyrir því. Þau rök hafa ekki komið fram við umræðu á Alþingi en ég vona að menn hafi grandskoðað málið hver og einn og séu sáttir við sína samvisku.