Starfsmenn í hlutastörfum

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 13:45:48 (4733)

2004-03-02 13:45:48# 130. lþ. 74.2 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv. 10/2004, fjmrh. (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[13:45]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Virðulegi forseti. Ekki veit ég hvort það var viljandi hjá hv. þm. en hann ruglaði saman hugtökunum ,,hlutavinnufólk`` og ,,tímavinnufólk``. Ef þessi brtt. sem hann flytur verður samþykkt þá yrðu sett í uppnám starfskjör og umhverfi þess fjölda fólks sem vinnur sem tímavinnufólk, hvort sem það eru ellilífeyrisþegar í tímavinnu eða t.d. fólk við stundakennslu í hinum fjölmörgu skólum hins opinbera.

Markmiðið með þessum lögum er að jafna réttindi milli tiltekinna ráðningarforma, hlutastarfa og fullra starfa. Það er ekki markmiðið með þessu lagafrv. að raska því sem hér hefur tíðkast á Íslandi í sambandi við tímavinnu.

Síðan bendi ég á, virðulegi forseti, að í frv. er ákvæði um endurskoðun á þessu máli innan tveggja ára hvað þetta tiltekna atriði varðar. Vonandi verða menn þá komnir lengra áleiðis í að semja um þetta milli samningsaðila. Af minni hálfu stendur ekkert í vegi fyrir því að hefja þá vinnu eins fljótt og hægt er. (ÖJ: Þið eruð að hafa réttindi af fólki.) Það er rangt. Ég segi nei við brtt.