Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 13:49:10 (4734)

2004-03-02 13:49:10# 130. lþ. 74.94 fundur 374#B heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[13:49]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Ástæða þessarar utandagskrárumræðu er sú alvarlega staða sem komin er upp í heimahjúkrunarþjónustu í Reykjavík og Kópavogi nú þegar ljóst er að meiri hluti hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða hafa hætt störfum vegna kjaradeilu um fyrirkomulag aksturs.

Heimahjúkrun er orðin einn af hornsteinum heilbrigðiskerfisins. Mikilvægi heimahjúkrunar hefur aukist og mun halda áfram að aukast, bæði vegna kröfu um aukin afköst sjúkrahúsa og þar með styttri legutíma sjúklinga og eins vegna breyttra viðhorfa til stofnanaþjónustu. Hið fyrrnefnda á sérstaklega við um Landspítala -- háskólasjúkrahús, sem stendur nú í miklum hagræðingar- og skipulagsaðgerðum til að halda sig innan ramma fjárlaga. Sjúklingar eru því útskrifaðir mun veikari en áður og þurfa oft mikla og flókna umönnun. Í mörgum tilfellum þurfa þeir sólarhringsþjónustu.

Sátt hefur verið um að draga úr allri stofnanavistun, hvort sem í hlut eiga aldraðir, fatlaðir eða langveikir einstaklingar. Mikið fatlaðir og langveikir, sem fyrir nokkrum árum hefðu verið inni á stofnun eða sjúkrahúsi, geta búið heima ef til staðar er örugg heimahjúkrun. Heimahjúkrun er ódýr og manneskjuleg þjónusta og algjör forsenda þess að hægt sé að draga úr annarri og dýrari þjónustu. Því ætti að leggja enn frekari áherslu á slíka þjónustu í framtíðinni.

Framganga forustu heilsugæslunnar í þessu máli er beinlínis andstæð þeirri stefnu að efla og tryggja viðunandi heimaþjónustu. Skerðing á heimahjúkrun í Reykjavík og Kópavogi bitnar ekki eingöngu á þeim sjúklingum og aðstandendum þeirra sem fá þjónustu í dag heldur mun skerðingin strax valda mikilli röskun á starfsemi Landspítala -- háskólasjúkrahúss og annarra sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu. Það verður hvorki hægt að útskrifa sjúklinga eins fljótt né eins mikla umönnunarsjúklinga og áður. Það er staðreynd sem þegar er komin í ljós. Eins má búast við ótímabærum innlögnum vegna manneklu í heimahjúkrun.

Þeir sem njóta þjónustu heimahjúkrunar þurfa margir mikla og persónulega aðstoð og hjúkrun. Það að vera öðrum háður og opna heimili sitt fyrir vandalausum er sérstök staða og erfitt hlutskipti fyrir marga. Því skiptir máli að þeir starfsmenn sem sinna þessu mikilvæga hlutverki myndi góð og persónuleg tengsl við skjólstæðinga sína. Reynsla, traust og áreiðanleiki er grunnur að góðri hjúkrun inni á heimilum fólks. Stöðugleiki í mannahaldi er því mjög mikilvægur.

Fram hefur komið sú staðhæfing að fyrrverandi aksturs\-kerfi hafi í sjálfu sér verið afkastahvetjandi, þ.e. hvatt til fleiri en styttri vitjana sem hafi komið fram í hærri akstursgreiðslum og verri þjónustu. Þetta er óréttmæt fullyrðing.

Hið rétta í þessu sambandi er að starfsmenn heimahjúkrunar fara eftir vinnuskema þar sem settar eru niður vitjanir á hverja vakt á tímaplani og eftir hjúkrunarþyngd. Ábyrgð á fjölda vitjana liggur því hjá hverfisstjórum en ekki sjálfum starfsmönnunum.

Frú forseti. Það að heilsugæslan nýtti sér ekki lögbundinn rétt til að framlengja ráðningu starfsmanna um sex mánuði þegar ljóst var að samningar mundu ekki nást fyrir 1. mars segir okkur að eitthvað annað og meira hljóti að búa að baki en eingöngu breyting á aksturslið kjarasamninga, sérstaklega þegar tillit er tekið til þess að starfsmenn höfðu komið til móts við kröfur heilsugæslunnar og lítið virðist hafa borið á milli samningsaðila þegar upp úr slitnaði.

Frú forseti. Hjúkrunarforstjóri heimahjúkrunar lýsti því yfir að gripið yrði til neyðarráðstafana til að halda uppi lágmarksþjónustu og að hjúkrunarfræðingar frá Alhjúkrun, einkarekinni hjúkrunarþjónustu, yrðu ráðnir til brýnna starfa. Þessu mótmæltu fyrrverandi starfsmenn og hefur þessari ráðstöfun verið ýtt til hliðar, að sinni a.m.k. Enda hljótum við að spyrja: Hvað réttlætir uppsögn þjálfaðs og reynsluríks fagfólks vegna deilna um tiltölulega lágar upphæðir og ráðningu utanaðkomandi starfsmanna á hærri launum í staðinn? Hvaða sparnaður verður í rekstri heimahjúkrunar ef taka á upp samninga við einkarekna hjúkrunarþjónustu? Er ekki verið að ganga inn í launadeilu með óviðurkvæmilegum hætti í þeim tilgangi að koma á kerfisbreytingum? Er eingöngu verið að semja um kerfisbreytingu í akstri eða er einnig verið að koma á einkarekinni heimahjúkrun í heilsugæslunni, líkt og verið hefur á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi?

Ég spyr því hæstv. heilbrrh.: Var gerð krafa um sparnað á aksturslið heimahjúkrunar á þessu ári? Hvað munar miklu í rekstri á þessum tveimur kerfum, þ.e. akstri á einkabílum samkvæmt tilboði starfsmanna og notkun rekstrarleyfisbíla? Ef um einhvern sparnað er að ræða, er hann þá þess virði að setja alla þjónustu heimahjúkrunar í uppnám? Hvað mun ráðherra gera til að leysa úr núverandi ástandi og tryggja heimahjúkrun til lengri tíma?